Innlent

Algjör bjartsýni að mótvægisaðgerðir skili sér

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Landssamband eldri borgara vill að hafist verði handa við að byggja nýtt sjúkrahús.
Landssamband eldri borgara vill að hafist verði handa við að byggja nýtt sjúkrahús. Vísir/Pjetur
Kjaramálanefnd Landssamband eldri borgara hefur sent frá sér ályktun vegna fjárlagafrumvarpsins.

Í ályktuninni er því mótmælt að virðisaukaskattur verði hækkaður úr 7% í 12% þar sem það sé „algjör bjartsýni að mótvægisaðgerðir muni skila sér.“ Hækkunum á lyfjum er einnig mótmælt, „ekki síst þar sem við berum hæsta virðisaukaskatt á lyf sem finnst í samanburðarlöndum.“

Þá segir jafnframt í ályktuninni að umræðan um Landspítalann sé orðin „gatslitin.“ Komi sé tími til að hefjast handa við að byggja nýtt sjúkrahús þar sem tugir milljóna hafi nú þegar farið í að gera breytingar á til dæmis deiliskipulagi og teikningum.

Ályktunina í heild má sjá hér að neðan.

Ályktun Kjaramálanefndar LEB 25. sept. 2014

Kjaramálanefnd LEB hefur fjallað um nýgerð fjárlög og áhrif þeirra á stöðu eldri borgara. Fyrst ber að nefna aðför að matarverði sem þar er lögð til. Það er algjör bjartsýni að mótvægisaðgerðir muni skila sér. Fyrir því er margra áratugareynsla sem gleymist ekki. Því hafnar Kjaranefnd LEB allri umræðu um að hækka matarskattinn frá 7% í 12% og síðar 14% eins og einn ráðherrann tilkynnti í eldhúsdagsumræðum.

Aðrar hækkanir sem boðaðar hafa verið eru hækkanir á lyfjum og því greiðsluþaki sem þar er. Því er alfarið hafnað ekki síst þar sem við berum hæsta virðisaukaskatt á lyf sem finnst í samanburðarlöndum. Víða er enginn virðisaukaskattur á lyf eða þá mjög lágur.

Í frumvarpinu er ekki að finna neinar úrbætur fyrir fólk sem er eingöngu á TR- bótum en þar hefur orðið gliðnun árum saman og nú á þessu ári um nokkur %.

Hækkun bóta um næstu áramót nær ekki að vinna á þessari þróun þannig að fólk sem er á lægstu bótunum er almennt illa statt fjárhagslega.

Langvarandi umræða um Landspítalann og hvort eigi að byggja eða fresta er orðin gatslitin. Umræðan um að aldraðir teppi svo og svo mörg rúm eða fylli ganga er ómakleg þar sem hvert þjóðfélag er upplýst um að öldruðum fjölgar og lífaldur lengist og því fylgja innlagnir á sjúkrahús. Umræðan sem líka fjallar um sífellt neyðarástand hefur slæm heilsufarsleg áhrif á eldri borgara og er mál að linni. Kostnaður við að gera út hverja nefndina á fætur annarri og breytingar á teikningum og deiliskipulagi kostar orðið tugi milljóna. Þeim peningum hefði verið betur varið í alvöru þarfagreiningu í upphafi. Því skorum við á stjórnvöld að vinna hratt að uppbyggingu nýs sjúkrahúss.

Eldra fólk vill búa við öryggi.

Í okkar velferðarsamfélagi hefur öryggi fólks verið skert.

Kjaramálanefnd LEB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×