Innlent

Vill vísindaleg rök en ekki pólitísk tilfinningarök

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Vísir/AFP/Daníel
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, tók þátt í ráðherrafundi um málefni hafsins sem haldinn var samhliða allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Þar fjallaði hann um þau atriði sem Ísland leggur áherslu á að verði leiðarljós í mótun nýrra markmiða um sjálfbæra þróun, sem til stendur að samþykkja á allsherjarþingi að ári.

Í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu segir að Gunnar Bragi hafi í fyrsta lagi sagt að auðlindir hafsins beri að nýta á sjálfbæran hátt til að auka fæðuöryggi á heimsvísu og berjast gegn fátækt. Þá sagði hann að efla þyrfti ábyrga fiskveiðistjórn, leggja af opinbera styrki í sjávarútvegi og berjast gegn ólöglegum fiskveiðum.

Þar að auki fjallaði hann um að brýnt væri að vernda vistkerfi sjávar og berjast gegn mengun í hafi. Einnig þyrfti að byggja upp getu meðal þróunarríkja til að styrkja fiskveiðistjórnun og verndun á auðlindum hafsins.

„Á fundinum lagði ég áherslu á að ríki heims verði að geta nýtt auðlindir sjávar með sjálfbærum hætti þar sem ákvarðanir stjórnmálamanna byggist á vísindalegum rökum en ekki á pólitískum tilfinningarökum. Í hafinu eru vannýttar auðlindir en slök fiskveiðistjórn leiðir á sama tíma víða til ofveiði. Ísland mun áfram beita sér fyrir því að alþjóðleg stefnumörkun taki á þessum vanda og að skynsamlega verði tekið á sjónarmiðum bæði nýtingar og verndunar á þessum dýrmætu auðlindum,“ er haft eftir Gunnari Braga í tilkynningunni.

Fyrr um daginn tók hann þátt í ráðherrafundi aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE( um öryggishorfur í Evrópu. Þar sagði Gunnar Bragi að innlimun Krímskaga ógni öryggi í Evrópu.

Vísaði hann til þess að Helsinki yfirlýsingin sem er grundvöllur starfsemi ÖSE feli í sér ákveðin grundvallargildi í samskiptum aðildarríkjanna. Meðal annars beri að virða sjálfstæði ríkja og fullveldi landamæra. Ekki skuli beita hernaðarafli í deilumálum.

Gunnar Bragi benti á þau skref sem úkraínsk stjórnvöld hafa tekið nýverið til að auka réttindi héraða í Austur-Úkraínu og hvatti rússnesk stjórnvöld til að bregðast við þeim á uppbyggilegan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×