Innlent

Líkamsárás á Ólafsfirði: Einn kinnbeinsbrotinn og annar tannbrotinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Ólafsfirði.
Frá Ólafsfirði.
Fimm karlmenn hafa verið ákærðir fyrir tvær alvarlegar líkamsárásir aðfaranótt 17. júní 2012 á Ólafsfirði. Annar þeirra sem fyrir árásinni varð kinnbeinsbrotnaði meðal annars en í hinum brotnaði tönn.

Árásin átti sér stað við Aðalgötu þar sem mennirnir fimm eru sakaðir um að hafa veist að tveimur mönnum, ítrekað slegið og sparkað í líkama þeirra. Einn ákærða sló annan mannanna þannig að hann féll á bekk. Tönn brotnaði í munni hans auk þess sem hann bólgnaði yfir kinnbeini.

Einn árásarmannanna fimm, sem allir eru skráðir til heimilis á Ólafsfirði, er ákærður fyrir sérstaklega alvarlega líkamsárás. Sá er sakaður um að hafa í kjölfar fyrri árásar veist að öðrum mannanna tveggja með því að sparka og slá ítrekað í líkama og höfuð hans. Sú árás átti sér stað við gatnamót Hornbrekkuvegar og Brekkugötu. Maðurinn kinnbeinsbrotnaði, fékk glóðarauga á báðum augum, bólgur og mar í andlit, verki og eymsli í hálshrygg og kjálkum.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Norðurlands Eystra á fimmtudag. Mennirnir fengu frest til að taka afstöðu til ákærunnar. Einn þeirra var ekki viðstaddur þar sem hann var ekki á landinu. Sá ku hins vegar vera væntanlegur til landsins.

Maðurinn sem kinnbeinsbrotnaði fer fram á rúma milljón í skaða- og miskabætur. Sá sem tannbrotnaði krefst rúmlega 700 þúsund króna í bætur. Báðir krefjast þess að ákærðu greiði málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×