Innlent

„Bókin á ekki að vera eitthvað sem myglar upp í hillu og safnar ryki“

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
„Bókin á ekki að vera eitthvað sem myglar upp í hillu og safnar ryki“, segir Dorothee Lubecki, sem á sæti í verkefnisstjórn „Bókabæjanna fyrir austan fjall“ en stofnfundur samtakanna var haldin um helgina í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Sveitarfélagið Ölfus, Sveitarfélagið Árborg og Hveragerðisbær hafa ákveðið að gerast bókabæir.

En út á hvað gengur verkefnið ?

„Það gengur út á að finna heimili fyrir munaðarlausu bókina. Það er gríðarlega mikið af bókum, sem að fólk og stofnanir eru að losa sig við. Það þarf meira en einn lítinn bóksala, það þarf heild samfélag til að taka að sér á landsvísu að miðla þessum bókum,“ segir Bjarni Harðarson, bókasali á Selfossi, sem á einnig sæti í verkefnisstjórninni.

Dorothee Lubecki, sem er menningarfulltrúi Suðurlands var strax hrifin af hugmyndinni um „Bókabæina fyrir austan fjall“.

„Við þurfum að standa vörð um bókina gagnvart næstu kynslóðum. Mér finnst þetta samfélagsverkefni líka því við ætlum að reyna að styðja við læsi barnanna og reyna að vera skemmtileg. Bókin á ekki að vera eitthvað sem myglar upp í hillu eða safnar ryki þar. Þetta á að vera tól, sem við eigum að hafa gaman af og nýtum okkur að gera samfélagið skemmtilegra“, segir Dorothee.

En hvernig sér Bjarni verkefnið eftir 10 ár ?

„Við sjáum fyrir okkur að þetta svæði hafi forystu á landsvísu við að markaðssetja notaðar bækur og nýjar bækur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×