Innlent

Þarf líklega bara að hreinsa hvalina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einn af hvölunum á hvalasýningunni.
Einn af hvölunum á hvalasýningunni. Vísir/Vilhelm
„Það er alveg klárt að við munum opna. Það er bara spurning um hvenær,“ segir Stella Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar Whales of Iceland. Eldur kviknaði í einu af 23 hvalalíkönum safnsins síðastliðinn laugardag eins og Vísir greindi frá. Var töluverður viðbúnaður hjá slökkviliðinu þótt nokkuð greiðlega hefði gengið að slökkva eldinn. Hátt er til lofts í húsakynnum sýningarinnar og gekk því seinlega að reykræsta.

„Það var svo rosalegur reykur að maður vissi ekki hverju maður átti von á. Þetta leit samt betur út en við höfðum þorað að vona,“ segir Stella sem fylgdist ásamt fleirum með slökkviliðsmönnum við störf. Hún segir hvalinn sem skemmdist hafa verið búrhval, einn af glæsilegustu hvölum sýningarinnnar.

„Auðvitað söknum við búrhvalsins. Hann var einn af okkar uppáhalds og flottustu. Við munum leita leiðar til að fá nýjan búrhval,“ segir Stella.

Umræddan búrhval má sjá eftir rúma mínútu í umfjöllun Hrundar Þórsdóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 4. september.

Óttast var að fleiri líkön hefðu skemmst en Stella er bjartsýn á að í lagi verði með hina 22.

„Ég held að þetta sé bara þrifamál. Þeir fengu yfir sig sót og vatn,“ segir Stella. Svo vel vill til að hvalirnir eru vatnsheldir.

Ekki liggur fyrir hvert tjónið er í krónum metið. Stella segir sýninguna hafa verið ágætlega tryggða og tryggingafélagið sé að meta tjónið. Niðurstaðan úr því mati hafi mikið að segja um hvenær hægt verði að opna sýninguna. Það verði þó ekki á næstum tveimur vikum. Það sé ljóst.

Eldurinn kviknaði út frá rafsuðutæki en iðnaðarmenn voru við störf í safninu.

„Þeir unnu með eldvarnarmottur eins og lög gera ráð fyrir. Þetta var einfaldlega slys.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×