Innlent

Dýr á stærð við strætó sem gefa frá sér hljóð hærri en í þotu

Hrund Þórsdóttir skrifar
Stærsta hvalasýning í Evrópu verður opnuð við Fiskislóð á Granda í Reykjavík á fimmtudaginn. Að sýningunni standa sjóðurinn Icelandic Tourism Fund og frumkvöðullinn Hörður Bender en á stefnuskrá sjóðsins, sem er í eigu Icelandair Group, Landsbankans og nokkurra lífeyrissjóða, er að fjárfesta í uppbyggingu ferðaþjónustu og fjölga afþreyingarkostum fyrir ferðamenn.

„Hvalir eru vissulega ákaflega spennandi dýr. Margir koma til Íslands til þess eins að fara í hvalaskoðun og þetta er í raun bara til að útvíkka og dýpka þá upplifun,“ segir Stella Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar Whales of Iceland.

Gólfflötur safnsins verður um 1700 fermetrar og er þetta stærsta hvalasýning í Evrópu. „Það er að segja, við verðum með flest hvalalíkön í fullri stærð og við munum bjóða gestum að sjá alla þá 23 hvali sem hafa fundist við Íslands strendur,“ segir Stella.

Hún segir hvalina spennandi dýr sem flestir viti í raun lítið um. Hjartað í meðalstórum hnúfubak vegur til dæmis tæplega 200 kíló, eða á við þrjár fullorðnar manneskjur og búrhvalurinn, sem er ásamst steypireiðinni háværasta dýr jarðar, getur gefið frá sér hljóð sem er hærra en í þotu að taka á loft.

Sýningin verður gagnvirk og þar verður meðal annars hrefna með skjám þar sem hægt verður að skoða innyfli hennar. Stella segir fólk heillast af hvölum vegna stærðar þeirra. „Þótt við þekkjum tölurnar um stærð þeirra gerum við okkur ekki grein fyrir henni fyrr en við sjáum þá. Sumir hvalir eru á við strætisvagn á stærð. Þeir eru svo gríðarlega stórir og við svo lítil.“


Tengdar fréttir

Stærsta hvalasafn í Evrópu

Tuttugu og þrjú líkön af hvölum í fullri stærð eru nú á leið til landsins. Þau munu prýða nýtt hvalasafn sem verið er að reisa á úti á Granda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×