Innlent

„Enn ein kynningarherferðin sem Íslendingar fá um allan heim“

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Vísir/Valli/Egill
Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fylgist náið með eldsumbrotunum í Holuhrauni og í nágrenni við Bárðarbungu. Hann var erlendis þegar gosið hófst en hefur fylgst með því upp á hvern einasta dag síðan.

„Mér finnst þetta gos sýna okkur og líka heimsbyggðinni, ég hef fylgst mjög náið með því hvernig allar helstu sjónvarpsstöðvar heims segja sífellt fréttir af þessu gosi, að við eigum alveg ótrúlega öfluga sveit af vísindamönnum og sérfræðingum, á heimsmælikvarða, sem með sínum mælitækjum og sínu rannsóknarstarfi geta greint þetta gos þannig að allir helstu fjölmiðlar heims ganga bara í smiðjur hinna íslensku vísindamanna“, segir Ólafur Ragnar og bætir við:

„Auðvitað er þetta gos líka þannig að það minnir okkur á það, hvað sem líður öllum framförum og tækni, að þá er herradómurinn ennþá í höndum náttúrunnar. Við getum nánast hvenær sem er, á hvaða áratug, orðið vitni að því að umbrotin á Íslandi geta orðið það hrikaleg að við þurfum öll að standa saman  sem þjóð til þess að glíma við þann vanda.“

En er verið að gera of mikið úr gosinu ?

„Það er erfitt að segja, við verðum að taka öllum svona viðburðum mjög alvarlega, það gerir okkar vísindasveit, það gerir fólkið með mælitækin og það gerir fræðasamfélagið. Við eigum þess vegna að taka orð þeirra mjög  alvarlega. En við getum auðvitað sagt til þessa að þá hefur þetta gos fyrst og fremst verið enn ein kynningarherferðin sem Íslendingar fá um allan heim“, segir forseti Íslands.    




Fleiri fréttir

Sjá meira


×