Innlent

Glímdi við minnisleysi í kjölfar hjartastopps

Edda Sif Pálsdóttir skrifar
Reglulega berast fréttir af ungu fólki sem farið hefur í hjartastopp. Orsakirnar eru mismunandi og eftirleikurinn líka. Af þeim 47 einstaklingum 30 ára og yngri sem Landspítalinn sinnti á árunum 2003-2013 létu 18 lífið en þökk sé aukinni þekkingu fer þeim fækkandi. 

Sunna Stefánsdóttir er með meðfæddan og arfgengan hjartagalla sem kom ekki í ljós fyrr en hún fór í hjartastopp 21 árs gömul. Hún var í um eitt og hálft ár að jafna sig á líkama og sál og glímdi til að mynda við minnistruflanir. Í kjölfar hjartastoppsins voru fjölskyldumeðlimir rannsakaðir og reyndust nokkrir vera með sama galla, m.a. bróðir Sunnu sem var síðar ranglega greindur með flogaveiki, mamma hennar og amma. Einnig má leiða líkur að því að hægt sé að rekja nokkur dauðsföll í fjölskyldunni til gallans.



Sunna ásamt dóttur sinni Söru Björt sem ekki er með gallann.
„Árin fyrir hjartastoppið vissi ég alltaf að það væri eitthvað að, ég bara vissi ekkert hvað það var,“ segir Sunna sem féll fyrst í yfirlið um tveggja ára aldur. „Það er svolítið erfitt að lifa með þessum galla ef maður veit ekki af honum, þá upplifir maður veikindi og ýmislegt sem hefur áhrif á mann en um leið og maður fær réttu lyfin og rétta meðhöndun er ekkert mál að lifa með þessu“. 

Rætt var við Sunnu og bróður hennar í Íslandi í dag. Einnig var talað við Sigurbjörgu Jóhönnu Gísladóttur sem fór í hjartastopp vegna þykkingar í hjartavöðva, Þorvald Sigurbjörn Helgason sem enga skýringu hefur fengið á sínu hjartastoppi og Hjört Oddsson hjartalækni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×