Innlent

Gos hafið að nýju

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Af vefmyndavél Mílu má glögglega sjá að gos er hafið að nýju í Holuhrauni um fimm kílómetra norðan Dyngjujökuls, á sama stað og gos hófst aðfaranótt föstudags.

Hægt er að horfa á beina útsendingu úr vefmyndavélinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Click here for an English version.

Þoku brá yfir vefmyndavél Mílu um kl 4:30 en þegar henni létti um 5:49 varð vaktmaður Mílu var við gosið. Líkt og sjá má á vefmyndavélinni, sem nálgast má hér að neðan, bregður þoku reglulega fyrir gossvæðið en veður á svæðinu er vont eins og víðast hvar á landinu.

Sjá myndband frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands neðst í fréttinni.

Gossins aðfaranótt föstudags varð vart rétt upp úr miðnætti en var að mestu lokið um þremur klukkustundum síðar.

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, staðfestir í samtali við Vísi að gosið sé á sama stað og aðfaranótt föstudags en virðist nokkuð minna bæði af myndum og mælum að dæma.

Martin Hensch, jarðskjálftafræðingur á vakt hjá Veðurstofunni, staðfestir í tilkynningu að gos sé hafið á sprungu í Holuhrauni. Staðsetning sé um það bil sú sama og í gosinu aðfaranótt föstudags.

Gosið virkar minna að hans sögn og nánast engin virkni birtist á jarðskjálftamælum að hans sögn.

Vísindamaður Veðurstofunnar, sem gistir ásamt fleiri vísindamönnum í Dreka í Drekagili, er á leiðinni á svæðið. Víðir segir viðbúnað minniháttar á meðan verið sé að átta sig á hlutunum.

Hér má fylgjast með beinni útsendingu úr vefmyndavél 2 hjá Mílu.


Uppfært 07:14

Samkvæmt upplýsingum frá Samhæfingarmiðstöð Almannavarna eru jarðvísindamenn á svæðinu. Þeir segja gosið vera minna og sprunguna styttri en á föstudaginn og einnig hafi sprungan teygt sig um fimm hundruð metra í norður. Hraun úr sprungunni rennur eingöngu til austurs.

Hreinn Beck hjá Mílu ber saman gosin tvö á myndinni en hafa verður í huga skekkju vegna birtuskilyrða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×