Innlent

Sigmundur Davíð: Traustvekjandi að sjá fagmennskuna

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
„Það er auðvitað mjög traustvekjandi að sjá hversu mikil fagmennska er á ferð í Almannvörnum á Íslandi. Hvað menn hafa í raun unnið þetta vel og lært mikið af reynslu undanfarinna ára og áratuga. Þannig að hér hjá Almannavörnum og öllum sem hjá þeim starfa eru menn með allt á hreinu og fyrir vikið er maður mikið rólegri, hvert sem framhaldið verður,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í samtali við Birtu Björnsdóttur, fréttamann Stöðvar 2, eftir fund sem hann sat í Samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð á fjórða tímanum í dag.

Sigmundur sagði að á fundinum hefði verið farið yfir hugsanleg viðbrögð við gosinu sem talið er að sé hafið undir Dyngjujökli. Sigmundur sagði að verið væri að fara yfir hvernig „yrði brugðist við ólíkum sviðsmyndum.“

Ásamt Sigmundi Davíð sátu þau Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, Haraldur Jóhannesson ríkislögreglustjóri og Víðir Reynisson, deildarstjóri hjá Almannavörnum fundinn í Skógarhlíð, eins og Vísir sagði frá fyrr í dag.

Sigmundur hrósaði Almannavörnum einnig á Facebook-síðu sinni. Þar sló hann á létta strengi og sagði það uppörvandi að starfsmennirnir í Samhæfingarmiðstöðinni væru að drekka gos og borða hraun. Innslag hans á Facebook má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð kallaður út í Skógarhlíð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Haraldur Jóhannesson funda nú í Samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð ásamt fleirum vegna gossins í Dyngjujökli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×