Innlent

Ætlar í mál við Google vegna leitarvalmöguleika

Samúel Karl Ólason skrifar
Albert Yeung vill bætur frá Google.
Albert Yeung vill bætur frá Google. Vísir/AP
Viðskiptajöfur frá Hong Kong getur höfðað meiðyrðamál gegn Google vegna leitarvalmöguleika sem gefur í skyn að hann tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Dómstóll þar hefur fellt niður gagnkæru Google.

Albert Yeung mun því höfða meiðyrðamál gegn Google vegna þess að þegar nafn hans var slegið inn í leitarvél fyrirtækisins, kemur upp leitarvalmöguleikinn Triad. Það er heiti yfir skipulögð glæpasamtök í Kína.

AP fréttaveitan segir Albert vilja bætur því nafn hans og orðspor hafi beðið verulega hnekki.

Google sagði að hann hefði frekar átt að biðja umráðamenn heimasíðunnar þar sem Triad nafnið er tengt honum, að taka það úr birtingu. Dómari var þó ekki sammála því og sagði Google geta ritskoðað efni leitarvélar sinnar.

Fyrirtækið hefur lent í töluverðum vandræðum vegna dómsúrskurða víða um heim að undanförnu. Æðsti dómstóll Evrópusambandsins sagði til dæmis fyrr á árinu að Google og aðrar leitarvélar yrðu að bregðast við beiðnum um að birta ekki leitarniðurstöður sem vísi til persónuupplýsinga.

Dómstóll í Þýskalandi skipaði fyrirtækinu í fyrra að fyrirtækinu væri skilyrt að fjarlægja leitarvalmöguleika sem tengdu mann við Vísindakirkjuna og svik.

Mynd/Skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×