Innlent

Votviðrið setti strik í reikninginn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
„Við vorum í fullum samskiptum við Reykjarvíkurborg í þessu verkefni. Maður mætir ekkert með stærðarinnar sirkustjald og bara setur það niður. Það segir sig sjálft,“ segir Margrét Erla Maack, talskona Sirkus Íslands. Fyrr í dag greindi Vísir frá því að Hundavinafélagið á Klambratúni væri ósátt með hvernig komið er fyrir grasbala einum þar sem áður stóð tjald á vegum sirkussins.

Hin svokallaða skeifa á Klambratúni er illa farin eftir sýningar sirkussins á túninu. Þar sem tjaldið stóð er nú eitt moldarsvað og stærðarinnar hjólför liggja til og frá svæðinu en sirkusinn er á faraldsfæti um landið í sumar.

„Ágangurinn var mjög mikill og í raun meiri en við gerðum ráð fyrir. Því brugðum við á það ráð að kaupa mottur til að reyna að draga úr átroðningnum,“ segir Margrét og bætir við að motturnar séu nú staðlaður búnaður á öllum sýningum sirkussins.

Margrét minnir á að veðurfarið hafi vissulega skipt máli í þessu samhengi. Síðustu vikur hafa verið einstaklega votviðrasamar og það hafi gert jarðveginn mjög viðkvæman fyrir áreiti.

„Við vorum í daglegum samskiptum við garðyrkjumenn á vegum borgarinnar þegar tók að rigna jafn mikið og raun bar vitni og við gerðum margvísleg plön til að allt færi vel. Við unnum með hámenntuðu fólki sem þekkir Klambratún eins og handabakið á sér og það mælti sérstaklega með þessari staðsetningu“

Eftir að Sirkusinn fjarlægði tjaldið sitt á dögunum hafi strax verið ráðist í það að róta upp jarðveginum og sá grasfræjum. Búist er við því að allt verði komið í samt horf innan tveggja vikna, „sérstaklega ef heldur áfram að rigna svona.“

Sirkusinn er nú staddur á Ísafirði og að sögn Margrétar hafa sýningar gengið vel. „Við erum búin með tvo sýningardaga, sex sýningar búnar, fjórar eftir, troðfull tjöld og gleði,“ segir Margrét og bætir kímin við: „Og við erum að sjálfsögðu líka í fullu samstarf við bæjaryfirvöld á Ísafirði.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×