Innlent

Klambratún illa farið eftir sýningar Sirkuss Íslands

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VÍSIR/JÓN HÁKON
Mikil ólga er meðal hundaeigenda í Hlíðahverfinu í Reykjavík vegna þess hvernig komið er fyrir grasbala einum þar sem áður stóð sirkustjald á vegum Sirkus Íslands.

Hin svokallaða skeifa á Klambratúni er illa farin eftir sýningar sirkussins á túninu. Þar sem tjaldið stóð er nú eitt moldarsvað og stærðarinnar hjólför liggja til og frá svæðinu en sirkusinn er á faraldsfæti um landið í sumar.

Tjaldið er spánýtt og fara nú fram sýningar í því á Ísafirði. Því næst mun sirkusinn halda til Akureyrar, Selfoss og Reykjanesbæjar.

Vísir tók hundaeiganda tali sem sagði aðkomuna ekki góða.  Svæðið er mikið notað af hundaeigendum og meðlimir Hundavinafélagsins á Klambratúni (HFK) hittast þar meðal annars um helgar.

Þrátt fyrir að bannað sé að vera með hundana lausa hafa eigendur þeirra leyft þeim að hlaupa um á svæðinu sem afmarkast af trjám allan hringinn. Auðvelt er að fylgjast með hundunum í rjóðrinu og því kjöraðstæður fyrir lausagöngu.

„Það er gífurlega ljótt hvernig komið er fyrir þessu svæði og ljóst er að það mun kosta töluverða fjármuni að tyrfa yfir það aftur,“ segir einn meðlimur HFK í samtali við Vísi.

Hundaeigendur hafa þegar kvartað yfir drullunni til borgaryfirvalda. Hundavinafélagið á Klambratúni hefur lengi barist fyrir svokölluðu hundagerði á þessu svæði en hverfisráð Hlíða hafnaði beiðni þeirra fyrir um tveimur árum síðan. 

Hér sést betur hvernig farið er fyrir svæðinu.VÍSIR/JÓN HÁKON



Fleiri fréttir

Sjá meira


×