Lífið

,,Ég og stelpan mín sem er ellefu ára vorum heima þegar ég fæ tilkynningu um mikinn eld"

Ellý Ármanns skrifar
Eva Sveinsdóttir vann þrekvirki ásamt 140 slökkviliðsmönnum í gær.
Eva Sveinsdóttir vann þrekvirki ásamt 140 slökkviliðsmönnum í gær.
Eva Sveinsdóttir slökkviliðskona var ein af fjölda slökkviliðsmanna sem voru kallaðir út í gær þegar elds varð vart í verslunarhúsnæði Griffils í Skeifunni 11. 

,,Ég og stelpan mín sem er ellefu ára vorum heima þegar ég fæ tilkynningu um mikinn eld og að ég eigi að mæta strax," segir Eva spurð um atburðarásina í gærkvöldi og hennar hlutverk við að ráða niðurlögum eldsins.

,,Ég tók hana því með mér á stöðina en hún var nýbúin að pakka fyrir ferð til Grindavíkur til systur minnar sem var á leiðinni að sækja hana. Hún fékk því aðeins að upplifa þessar aðstæður með mér. Hún fylgdist með þegar allir voru á hlaupum um stöðina að undirbúa sig fyrir vettvang."



,,Ég var á staðnum í rúmar þrjár klukkustundir," segir Eva.
Fyrsta verkefni að finna brunahana

,,Allir voru sendir á vettvang. Ég fór á sjúkrabíl á staðinn en mitt hlutverk er fyrst og fremst að vera í sjúkraáhöfn. Fyrsta hlutverk mitt á staðnum ásamt félaga mínum var að finna brunahana og aðstoða við að tengja slöngur stilla upp tækjum og þess háttar." 

,,Það tekur sinn tíma að stilla upp tækjum áður en árás á eldinn getur hafist. Eftir það var ég til taks til að redda því sem upp kom," segir Eva og heldur áfram:

Aldrei upplifað svona mikinn eld

,,Þetta var mesti eldur sem ég hef upplifað. Slökkvistarfið gekk ótrúlega vel miðað við umfang eldsins. Það var mikill eldur í hluta af þessari húsasamstæðu. Hluta byggingarinnar var ekki hægt að bjarga. Það var vitað strax og því var farið í að bjarga því sem hægt var að bjarga." 

Öflug liðsheild

Hvað voruð þið mörg að störfum? ,,Það voru um 120 til 140 manns frá slökkviliðinu ásamt utanaðkomandi aðstoð eins og lögreglu og björgunarsveitum."

,,Við eigum öflugt slökkvilið sem vinnur vel saman að sama markmiði og það var ótrúleg upplifun að vera inn í kjarnanum og upplifa þetta samstarf," segir Eva áður en hún heldur af stað til vinnu.


Tengdar fréttir

Slökkti eld á stuttbuxum: „Ég tímdi ekki að fara heim“

"Þegar svona eldur kemur upp eru svo ótrúlega mörg verk sem þarf að vinna – meira að segja fyrir mann á stuttbuxum. Þannig að ég vissi að ég þyrfti að rjúka til og hjálpa,“ segir Stefán Már Kristinsson sem vakti mikla athygli lesenda Vísis í gær, fyrir að vera á stuttbuxunum að slökkva eldinn í Skeifunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×