Innlent

Olíutankurinn í Mývatni verður ekki fjarlægður

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá leitinni við Mývatn í síðasta mánuði.
Frá leitinni við Mývatn í síðasta mánuði. Mynd/Landhelgisgæslan
Stór olíutankur sem sökk til botns í Mývatni árið 2004 er ekki talin alvarleg ógn við lífríki vatnsins og verður ekki ráðist í aðgerðir til þess að fjarlægja hann.

Þetta kemur fram í frétt á vef Umhverfisstofnunar. Landhelgisgæslan gerði leit að tanknum í byrjun maímánaðar að beiðni stofnunarinnar vegna ótta við að olíuleki úr tanknum gæti valdið umhverfisspjöllum. Talið er að á bilinu tvö hundruð til fimm hundruð lítrar af olíu hafi verið í tanknum þegar hann féll í vatnið en óvíst er hvort eða hversu mikið af olíu er í honum nú.

Í fréttinni sem birtist í dag segir að við leitina hafi fundist „stór málmhlutur 120 cm undir botnseti skammt frá þeim stað sem talið var að tankurinn hefði farið í vatnið“ og að yfirgnæfandi líkur séu á því að þarna sé á ferð tankurinn. Það verði hinsvegar ekki staðfest nema með því að grafa af honum.

Landhelgisgæslan og Umhverfisstofnun hafa fundað um málið og kom þá fram að aðgerðir við að fjarlægja tankinn myndu hafa í för með sér rask á lífríki Mývatns og telur stofnunin ekki ástæðu til að reyna það. 



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×