Innlent

Fann sprútt undir fjölum hússins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tunnan stóð í einu horni kjallarans
Tunnan stóð í einu horni kjallarans MYND/AÐSEND
Eiganda hátt í hundrað ára gamals húss í Reykjavík rak í rogastans þegar full tunna af heimabruggi fannst undir fjölum hússins.

Tunnan kom í ljós þegar búið var að lyfta gólfefninu af stofunni en bruggið stóð í einu horni kjallarans.

Í samtali við Vísi vildi maðurinn ekki láta nafn síns getið því húsið sem um ræðir er tómt með öllu og því hægðarleikur fyrir óprúttna að snara sér inn í það og gæða sér á fengnum, séu þeir á þeim buxunum.  Þessa dagana er verið að gera upp húsið en það er byggt árið 1919.

Iðnaðarmennirnir sem vinna að endurbótunum fundu megna áfengislykt af tunnunni og bentu eiganda hússins á fundinn sem smellti svo af mynd, en afraksturinn má sjá hér að ofan. Eigandinn hefur sjálfur ekki klöngrast þangað niður, hvað þá gætt sér á sprúttinu.

Maðurinn hefur ekki ákveðið hvað verði gert við allt áfengið – eitt er þó víst að það verður líklega ekki haft á boðstólnum að endurbótunum liðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×