Innlent

NASA nær mynd af þörungablóma við Íslandsstrendur

Bjarki Ármannsson skrifar
Á myndinni má greina þörungablómann suður af Íslandi.
Á myndinni má greina þörungablómann suður af Íslandi. Mynd/NASA
Á ljósmynd sem Bandaríska geimrannsóknarstöðin (NASA) birti nýverið má greina mikla litadýrð í sjónum suður af Íslandsströndum. Agnes Eydal, líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, mætti í Bítið í morgun til að útskýra nákvæmlega hvað það er sem ber fyrir augu á þessari mynd.

„Þetta er árvisst fyrirbæri,“ segir Agnes. „Við höfum verið að fylgjast með þessu undanfarna áratugi, þetta er semsagt kalksvifþörungur sem heitir Emiliania huxleyi. Þetta er örsmá einfrumuplanta og það sem er merkilegt við hana er að hún símyndar utan um sig kalkplötur. Þegar hún myndar nýja þá fellur gömul af, þannig að sjórinn verður alveg morandi í þessum kalkplötum.“

Þörungurinn myndar þannig mikil kalklög á hafsbotni. Þau virka eins og speglar og gervitungl NASA nema þau vel á myndum sínum.

„Við fáum ekki alltaf góðar myndir því það er oft skýjað á þessu svæði,“ segir Agnes. „En eftir að gervitunglin fóru að taka þessar myndir, er útbreiðsla þessarar tegundar ansi vel kortlögð. Ljóskastið frá henni er svo skýrt og hún finnst um öll heimsins höf en hún er í langmestu magni hér suður af landinu.“

Agnes segir þörunginn afskaplega fallegan og bendir á að ansi mikinn fjöldi þurfi til að mynda breiðu líkt og þá sem sést á myndinni.

„Stærðin á þessari frumu er svona fimm til tíu míkrómetrar,“ segir hún, en einn míkrómetri er einn þúsundasti hluti úr millímetra. „Þannig að þetta er gríðarlegur fjöldi.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.