Innlent

Fjölskyldubílnum stolið: "Ömurleg upplifun“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Atli Erlingsson og bíllinn.
Atli Erlingsson og bíllinn.
Þegar Atli Erlingsson ætlaði að skutla dóttur sinni á fimleikanámskeið í morgun rann upp fyrir honum að fjölskyldubíllinn, Nissan Patrol jeppi, var ekki lengur á planinu fyrir utan heimili hans. „Konan spurði mig fyrst hvort að ég hafði lagt honum annarsstaðar, bíllinn var bara horfinn,“ útskýrir Atli.

Bílnum hefur verið stolið fyrir utan heimili þeirra og hefur Atli gert lögreglunni viðvart. Hann biðlar til lesenda Vísis að hafa augun opin og gera lögreglu viðvart ef þeir sjá bílinn. Númer bílsins er UA-011.

Hrikaleg upplifun

Atli segir þetta hafa verið hrikalega upplifun, að sjá ekki bílinn í stæðinu fyrir utan heimili fjölskyldunnar í Hafnarfirði. „Þetta var hrikalegt, maður ætlaði varla að trúa þessu. Við vorum í IKEA í gær og komum svo heim. Bíllinn var í stæðinu þegar við fórum að sofa um miðnætti og var ekki þar þegar við ætluðum að nota hann um átta í morgun.“

Atli segir bílinn hafa verið læstan. „Ég skil ekki hvernig bílnum hefur verið stolið. En hann er svo sannarlega horfinn.“

Hér má sjá aðra mynd af bílnum.
Ekki vörslusvipting

Atli fékk spurninga frá lögreglunni, hvort einhver skuld hafi verið á bílnum. „En það er ekkert svoleiðis, engin vörslusvipting eða neitt slíkt. Ég gruna engan og hef ekki staðið í neinum illindum, ég einfaldlega skil þetta ekki,“ útskýrir hann.

Ætluðu í ferðalag

Dóttir Atla komst á fimleikanámskeiðið í morgun. „Amman var kölluð út og hún skutlaði á námskeiðið. Við erum búin að fá bíl að láni núna. En þetta er alveg ömurlega leiðinleg upplifun, við fjölskyldan vorum búin að skipuleggja ferðalag um helgina.“

Símanúmer lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er 444-1000 og eru lesendur Vísis, sem verða bílsins varir beðnir að hafa samband þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×