Innlent

Kynntist skelfilegri meðferð á fílum í Asíu

Bjarki Ármannsson skrifar
Bjarni Heiðar hvetur íslenska ferðamenn til að sniðganga staði sem bjóða upp á að hitta og fara á bak fíla.
Bjarni Heiðar hvetur íslenska ferðamenn til að sniðganga staði sem bjóða upp á að hitta og fara á bak fíla. Myndir/Bjarni Heiðar Bjarnason
Bakpokaferðalög ungra Íslendinga til Suðaustur-Asíu (Taílands, Víetnam og nágrannaríkja) njóta mikilla vinsælda um þessar mundir. Bjarni Heiðar Bjarnason, sem starfaði í fílaverndarsvæði í Taílandi í viku nú nýverið, biðlar til ferðamanna á Facebook-síðu sinni að sniðganga staði á svæðinu sem bjóða upp á að hitta og fara á bak fíla.

Barðir og fá ekki að sofa

„Það er verið að sjá um fíla þarna sem hafa annað hvort komið úr túristaiðnaðinum eða úr svona „logging,“ þar sem fílar eru látnir draga tré og eitthvað í iðnað,“ segir Bjarni Heiðar Bjarnason um starf sitt á verndarsvæðinu. „Þeir eru allir frekar illa farnir, hata fólk.“

Ferðamannaiðnaðurinn í Taílandi gerir mjög mikið út á framandi dýr, ekki síst fíla. Fílar flytja ferðamenn yfir hóla og hæðir og leika allskyns kúnstir fyrir þá.

„Þeir gera allskonar fyrir túrista sem þeir eiga ekkert að vera að gera, þannig séð,“ segir Bjarni.  „Þetta eru villt dýr, þeir eiga ekkert að vera að standa á höndum og eitthvað svona rugl.“

Á meðan Bjarni starfaði úti útskýrðu yfirmenn hans fyrir honum hvernig fílarnir eru margir hverjir pyntaðir til undirgefni, í daga eða jafnvel vikur.

„Ég fékk alveg „brútal“  lýsingu á því og sá myndir,“ segir hann. „Ég sá eitt myndband þar sem fíllinn var bundinn þannig að hann gat ekki sofið, fékk ekki að borða og var sleginn aftur og aftur með svona „bull hook,“ sem er svona spýta með krók á endanum.“

Bjarni á fílaverndarsvæðinu.Mynd/Bjarni Heiðar Bjarnason
Dansa ennþá fyrir matnum

Hann segir að fílarnir hafi borið þess merki hve illa var komið fram við þá. Eyru sumra þeirra voru rifin, aðrir verið þaktir í örum og einn eða tveir bakbrotnir. Á verndarsvæðinu er þessum fílum, sem margir hverjir koma frá eigendum sem réðu ekki lengur við þá, hjúkrað og gefið að borða.

„Markmiðið er að þeir geti farið út og verið á stærra svæði einir,“ segir hann. „En það var sagt við okkur að nokkrir þeirra munu ekkert geta það. Til dæmis var einn fíllinn tekinn frá móður sinni nýfæddur og kann ekki að nota ranann sinn til að borða. Hann er tuttugu eða þrjátíu ára og það þarf að handfóðra hann. Sem er mjög undarlegt.“

Bjarni segist hafa velt fyrir sér hvort fílarnir geri sér grein fyrir að þeir séu í betri aðstæðum en áður. Þeir séu hræddir við Taílendinga og að þeir hafi tvisvar reynt að ráðast á Bjarna.

„Við erum þannig séð óvinurinn. Svo er skrýtið að tveir fílarnir þarna dansa alltaf til að fá mat. Þeim var kennt að þeir þyrftu að dansa til að fá að borða og þeir gera það ennþá.“

Þessi meðferð á fílum og fleiri dýrum er mjög algeng í Taílandi og nágrannaríkjum þess. Bjarni segir innfædda þó ekki endilega líta á þetta sem vandamál.

„Þetta svæði lifir á túrismanum. Það er allt gert fyrir ferðamennina. Þetta er ekkert að verða minna því það er svo mikill peningur í þessu.

Ég var það stutt þarna að ég get ekki gert mikið annað en að setja þetta á Facebook og vona að einhverjir sjái þetta áður en þau fara til Asíu og hugsi, kannski ætti ég ekki að fá flotta „profile-mynd“ uppi á fíl.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×