Innlent

„Það panikka allir“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Arnar og Selma segja geðshræringuna hafa verið mikla á torginu þegar sprengjuhótunin barst.
Arnar og Selma segja geðshræringuna hafa verið mikla á torginu þegar sprengjuhótunin barst. MYND/AÐSEND
„Þetta var auðvitað bara skelfilegt. Ég var mjög hrædd,“ segir Selma Waagfjörð en hún var stödd á Damtorgi í Amsterdam þegar hollenska lögreglan rýmdi nærumhverfi þess í kjölfar sprengjuhótunar sem henni barst skömmu fyrir klukkan þrjú í dag.

Fátt er vitað að svo stöddu um hvað liggur að baki hótuninni en ályktað hefur verið að hún hafi beinst gegn eiganda byggingavöruverslunarinnar De Bijenkorf sem stendur við torgið.

Selma og Arnar kærasti hennar eru þessa dagana að heimsækja borgina og voru þau stödd á kaffihúsi við torgið þegar þau heyrðu fjölda sírena nálgast. „Fljótlega fóru að streyma inn á torgið sjúkra-, slökkviliðs- og lögreglubílar og tóku að loka að öllum komuleiðum að torginu og vísa frá umferð,“ segir Selma í samtali við Vísi 

Mikið af fólki hafi verið á torginu þegar atburðarásin hófst og enginn hafi vitað hvað á sig stóð veðrið. „Þá tók einn lögreglumaðurinn upp gjallarhorn og byrjaði að kalla eitthvað á hollensku en þá sá maður að mörgum varð töluvert bylt við. Síðan sagði hann á ensku: „Everybody get off the square now“ og það panikka allir. Fólk tók á rás af torginu og margir brustu í grát í geðshræringu,“ bætir Selma við.

Lögreglumenn gengu á milli nærliggjandi húsa og sögðu húsráðendum og öðrum sem störfuðu í grennd við torgið að halda sig innandyra meðan rannsóknin málsins stóð yfir.

Selma segir að þau Arnar hafi lítið fengið að vita fyrr en þau voru komin í örugga fjarlægð frá torginu þegar barþjónn á kaffihúsi í nágrenninu greindi þeim frá fyrrnefndri sprengjuhótun.

Nú um klukkan 19:00 var umferð aftur hleypt um hluta Damtorgs en lögreglan er enn með töluverðan viðbúnað við torgið.

Hér að neðan má sjá myndir af atburðarásinni í dag sem fólk hefur birt á samskiptamiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×