Innlent

Sjö milljónir falla á Akureyrarbæ vegna ólöglegra uppsagna

Randver Kári Randversson skrifar
Slökkviliðsmenn á Akureyri slökkva eld við Aðalstræti árið 2009.
Slökkviliðsmenn á Akureyri slökkva eld við Aðalstræti árið 2009. Vísir/Auðunn
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt Akureyrarbæ brotlegan við uppsögn tveggja slökkviliðsmanna. Landssamband slökkviliðsmanna og tveir einstaklingar hjá slökkviliðinu fóru í mál við bæinn og er niðurstaða héraðsdóms að uppsagnirnar hafi verið ólöglegar.

Í frétt Akureyri Vikublaðs um málið kemur fram að öðrum slökkviliðsmanninum fyrrverandi eru dæmdar bætur upp á þrjár milljónir króna. Hinn fær bætur sem nema tveimur milljónum króna. Málskostnaður er um tvær milljónir og fellur á bæinn. Með dóminum falla því sjö milljónir króna á útsvarsgreiðendur. Áður var búið að greiða háar fjárhæðir í sálfræðikostnað, skýrslur og úttektir vegna margra ára samskiptavanda innan liðsins sem endaði með því að fyrrverandi slökkviliðsstjóri hætti störfum á síðasta ári.

„Ég fagna því að dómurinn hafi staðfest það við við vissum, að þessi uppsögn væri ólögleg," segir Ingimar Eydal, fyrrum varaslökkviliðsstjóri í samtali við Akureyri Vikublað. Annar slökkviliðsmannanna sem nú hafa endurheimt æru sína eins og hann orðar það.

Anton Berg Carassco, aðaltrúnaðarmaður Slökkviliðsins á Akureyri, segir í samtali við Akureyri Vikublað að hlutir hafi batnað mjög innan liðsins eftir að fyrrverandi slökkviliðsstjóri hætti og niðurstaðan sé uppreisn æru fyrir stærstan hluta liðsins. „Þeir embættismenn bæjarins sem áttu að höndla þessi mál, bæjarlögmaður, starfsmannastjóri og bæjartæknifræðingur brugðust ekki síður en hann. Þegar hlutir eru komnir á hvolf var ekki brugðist við með réttum hætti.“

„Nú þegar ný bæjarstjórn hefur tekið við held ég að tími sé kominn til að staldra við og skoða hæfi sumra embættismanna hér í bæ. Bærinn vinnur samkvæmt dóminum ekki eftir reglum stjórnsýslu og öðrum lögum almennt, vandamálin snúa að ýmist ákvarðanafælni eða samtryggingu embættismanna,“ segir Anton Berg, aðaltrúnaðarmaður slökkviliðsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×