Innlent

Leikskólakennarar ráðþrota: Fundu iðandi hundaskít í sandkassanum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hér stendur Halldóra við sandkassann sem um ræðir en hann er við Seljaveg á þeim hluta leikskólans sem kallast Dvergasteinn.
Hér stendur Halldóra við sandkassann sem um ræðir en hann er við Seljaveg á þeim hluta leikskólans sem kallast Dvergasteinn. Mynd/Úr einkasafni
Starfsmenn á leikskólanum Drafnarsteini í Vesturbænum eru orðnir langþreyttir á kattaskít í sandkössum í garði leikskólans. Nú á þriðjudag fylltist hins vegar mælirinn þegar þau fundu úrgang úr hundi í sandkassanum.

„Við vorum nýbúin að skipta um sand í sandkössunum. Síðan var verið að skoða lóðina og þá fundum við hundaskít og hann var greinilega iðandi í lirfum,“ segir Halldóra Guðmundsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri. „Við höfum fengið fréttir af því, frá þeim sem þrífur og frá nágrönnum, að þegar við lokum á daginn og um helgar þá hafi hundaeigendur farið inn á lóðina, læst hliðum, sest niður með símann sinn og sleppt hundinum.“

Halldóra segir starfsmenn leikskólans ráðþrota fyrir vandamálinu. „Hundar eru bannaðir inn á lóðunum og það eru skilti sem segja til um það.“ Leikskólasvæðið er opið og er öllum frjálst að heimsækja það þegar leikskólinn er ekki opinn - en ekki með gæludýrin sín. „Sérstaklega ekki með hunda sem sleppt er lausum og fólk veit alveg hvað þeir eru að fara að gera. Mælirinn var alveg fullur af því að þetta eru ekki bara dýraeigendur sem finnst í lagi að sleppa hundunum heldur ormahreinsa ekki dýrin sín.“

Börn og hundar eru oft mestu mátar en hundar eru bannaðir í leikskólagörðum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.Mynd/Stefán
Hundeigendur eiga ekki að nota leikskóla sem klósett fyrir hundana sína

„Við erum með lítil eins árs börn sem finnst gott að smakka sand,“  segir Halldóra en leikskólasvæðið er kembt á hverjum morgni áður en farið er með börnin í útiveru. „Það er vandamál sem við erum orðin alltof vön, að þrífa kattakúk á hverjum einasta morgni. Það er alveg nóg útaf fyrir sig.“ Leikskólinn hefur látið fækka sandkössum um helming. „Nú erum við með tvo sem við hreinsum og alla lóðina til þess að hún sé örugg fyrir börn að leika í. Þetta var bara dropinn sem fyllti mælinn. Hvað á maður að gera? Bara láta malbika yfir sandkassana?“

Sandkassinn var afgirtur þegar hundaskíturinn fannst og skipt um sand í honum með tilheyrandi kostnaði fyrir Reykjavíkurborg. Nú er hins vegar leikskólinn á leið í frí og skólastjórnendur eru uggandi yfir hreinlæti á svæðinu. „Sandkassinn er í þannig landslagi að það er ekki hægt að setja yfir hann, helmingurinn af honum er í steinabeði,“ útskýrir Halldóra sem segist varla geta beðið nágranna um að hafa auga með garðinum og reka hundaeigendur brott með harðri hendi. 

Hún tekur fram að þau hafi alls ekkert á móti dýrum. „Við viljum bara ekki að þeir kúki í sandkassann okkar þar sem lítil börn eru að kanna heiminn í. Hundaeigendur eiga ekki að nota leikskóla sem klósett fyrir hundana og þeir eiga að láta skrá þá og ormahreinsa.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×