Innlent

Vinnuþrælkun tryggir hagstætt verð á rækju á vesturlöndum

Birta Björnsdóttir skrifar
Fréttaskýring The Guardian hefur vakið mikla athygli en eftir ítarlega rannsóknarvinnu þar á bæ þykir nú ljóst að rækjur sem fást keyptar á góðu verði í stærstu stórmörkuðum Bretlands, Bandaríkjanna og víðar eru fengnar úr þrælabúðunum á Tælandi.

Svokallaður ruslfiskur er veiddur undan ströndum Tælands. Ruslfiskurinn er nýttur í framleiðslu fiskimjöls, sem fyrirtækið CP Foods notar til rækjueldis. Rækjurnar eru svo seldar út um allan heim en CP Foods er stærsti dreifiaðili á rækjum í heiminum.

Aðstæðum um borð í skipunum, sem veiða ruslfiskinn, er einungis hægt að lýsa sem skelfilegum. Viðmælendur Guardian segja sögur af mansali, ofbeldi, svelti, pyntingum og morðum, sem líkja má við aftökur.

Sjálfsvísgstíðni meðal skipsmanna er mjög há, þar er um að ræða menn hneppta í vinnuþrælkun með litla sem enga von á lausn.

Samkvæmt óformlegri könnun fréttastofu eru rækjur merktar CP Foods ekki seldar í stórmörkuðum á hér á landi. Þó fannst ein tegund af rækjum frá Tælandi og í Kosti.

Það ber þó að hafa í huga að CP Foods selja vörur sínar til fjölmargra annarra dreifingaraðila um heim allan, sem getur gert fólki erfiðara fyrir að grennslast fyrir um uppruna vörunnar.

Talsmenn CP Foods segja að fyrirtækið versli eingöngu við aðila sem hafi tilskilin leyfi. Ekkert er þó gert til að kanna leyfin, sem er afar auðvelt að falsa, samkvæmt Guardian.

Yfirlýsingar hafa borist frá velflestum þeim bresku verslunarkeðjum sem bjóða upp á rækjur frá CP Foods, sem  fordæma þrælahald og hyggjast flest endurskoða innflutning sinn á vörum frá fyrirækinu.

Uppljóstrunin gæti haft í för með sér víðtækari vandamál fyrir Tæland, og hafa yfirvöld í Bandaríkjunum þegar íhugað að setja landið á lista yfir þjóðir heims þar sem mansal og þrælahald þrífst. Það gæti haft í för með sér viðskiptaþvinganir og niðurskurð á fjárhagsaðstoð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×