Innlent

Málsmeðferðartími verði ekki lengri en 90 dagar

Gunnar Atli Gunnarsson: skrifar
Innanríkisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi undirrituðu í dag samning um þjónustu við hælisleitendur en samningnum er ætlað að hraða málsmeðferð vegna hælisumsókna og bæta verklag.

Samningurinn var undirritaður í húsakynnum Rauða krossins í dag en meginmarkmið hans er að tryggja hlutlausa og óháða réttargæslu fyrir alla hælisleitendur þannig að jafnræðis sé gætt. Mun Rauði krossinn því taka tímabundið við því hlutverki að gæta hagsmuna hælisleitenda við umsókn þeirra um hæli. Samningurinn er liður í þeirri áætlun stjórnvalda að stytta málsmeðferðartíma hælisumsókna hér á landi þannig að hann verði að meðaltali ekki lengri en 90 dagar.

„Rauði krossinn tekur að sér ákveðin verkefni fyrir hönd Útlendingastofnunar og fyrir hönd innanríkisráðuneytisins. Síðan erum við með nýjum lögum að innleiða kærunefnd í þessi mál þannig að málin eru kærð frá Útlendingastofnun til þeirrar nefndar en ekki til innanríkisráðuneytisins, sem aftur hraðar málsmeðferð“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.

Innanríkisráðuneytið hefur í nokkrum málum á undanförnum mánuðum snúið við úrskurði Útlendingastofnunar í kjölfar mótmæla. En hefur ráðherra ekki áhyggjur af því, að auðveldara sé fyrir sjálfstæða stjórnsýslunefnd að staðfesta slíka úrskurði, heldur en ef valdið væri hjá ráðherra þar sem pólitískur þrýstingur getur haft áhrif?

„Það er nú þannig að í 90% tilfella eru úrskurðir Útlendingastofnunar staðfestir. Það er í undantekningartilvikum sem það gerist ekki. Það er hins vegar nauðsynlegt að vera með batterí sem að fer nákvæmlega yfir það, þetta eru flókin og snúin mál og við viljum hafa þau gagnsæ og eins faglega unnin og hægt er. Þannig að það er reynsla allra nágrannaþjóða okkar að það sé farsælast að gera þetta með þessum hætti“, segir Hanna Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×