Innlent

Ísland í dag: Aron tók rétta ákvörðun

Edda Sif Pálsdóttir skrifar
Aron Jóhannsson fæddist í Bandaríkjunum en foreldrar hans eru íslenskir og hann gat því valið á milli landsliða. Síðasta sumar var lokaákvörðun tekin, hann valdi að gefa kost á sér í bandaríska landsliðið sem tryggði sér stuttu síðar farseðil á HM. 

Aron er fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í mótinu en ákvörðun hans var engu að síður mjög umdeild hér heima og forystumenn KSÍ hvöttu hann til að „snúa baki við hugmyndum sínum um að skipta um landslið“ og hvöttu jafnframt almenning og fjölmiðla til að bregðast við og skora á Aron að spila fyrir Ísland. Í yfirlýsingu frá sambandinu sagði enn fremur: „Það eru engin rök fyrir því að Aron afsali sér íslensku ríkisfangi sínu í knattspyrnu“. 

Fjölskylda og vinir Arons eru þó sammála um að ákvörðun hans hafi verið rétt og með henni sé hagsmunum hans best borgið. Þetta kemur fram í Íslandi í dag í kvöld þar sem sýnd verður nærmynd af Aroni.

„Frekar en að spila vináttulandsleik við Eista í tíu stiga hita er hann í Ríó að drekka sangríu,“ segir Atli Hjaltested vinur Arons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×