Innlent

Réðst að lögreglumönnum með hnífi: "Verst að þú átt ekki börn“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Atvikin áttu sér stað á Ísafirði árið 2012.
Atvikin áttu sér stað á Ísafirði árið 2012.
Kona sem ákærð var fyrir það meðal annars að hafa ráðist að tveimur lögreglumönnum sem voru við skyldustörf með hnífi, reynt að stinga þá og hótað þeim lífláti var sakfelld í dag fyrir Héraðsdómi Vestfjarða. Hún var einnig sakfelld fyrir það að hafa ráðist að manni á heimili hans með hnífi og skærum og hótað honum lífláti.

Atburðurinn átti sér stað á Ísafirði þann 20. janúar 2012. Lögregla var um miðnætti kölluð að heimili manns sem kvað konuna hafa veist að sér og hótað að drepa hann. Konan, sem var svartklædd frá toppi til táar, var farin af vettvangi þegar lögregla kom. Var samstundis hafin leit að konunni en hún hringdi síðan sjálf í varðstjóra og tjáði honum að hún hefði haft í hyggju að drepa manninn sem hún hafði heimsótt fyrr um kvöldið. Hún sagðist einnig ætla að drepa nágranna sína eða lögreglumenn ef þeir skiptu sér af henni. Þegar lögreglumenn komu að heimili hennar tók hún á móti þeim með búrhníf en var yfirbuguð og handjárnuð. Við skýrslutöku daginn eftir bar konan við minnisleysi vegna áfengis og lyfjaneyslu.  

„Verst að þú átt ekki börn“

Konan var ákærð í sama máli fyrir að hafa hótað lögreglumönnum seinna sama ár. En þann 12. nóvember komu lögreglumenn að henni þar sem hún lá hreyfingarlaus í snjóskafli. Þegar þeir reistu hana við tók hún æðiskast og hótaði lögreglumönnunum barsmíðum. Hótanir konunnar beindust ekki aðeins að lífi og heilsu lögreglumannanna heldur einnig að eignum þeirra og fleira. „Verst að þú átt ekki börn“ og „ég ætla að kveikja í húsinu þínu,“ var meðal þess sem hún sagði við lögreglukonu og horfði beint í augun á henni. Í dóminum segir: „Þetta hafi hún túlkað sem beinar hótanir gagnvart sér og sinni fjölskyldu. Ákærða viti hvar hún og fjölskylda hennar búi og þekki vel til fjölskyldu hennar.“ Var þó aðeins sakfellt fyrir hótun um íkveikju en sýknað fyrir hin ummælin. Aftur bar hún við minnisleysi vegna lyfja- og áfengisneyslu en sagðist trúa því að hún hafi sagt þetta. Sagðist hún jafnframt verða „vitlaus með víni stundum.“

Konan hefur fjórum sinnum áður sætt refsingu fyrir hin ýmsu brot þar á meðal hættulega líkamsárás árið 2011 og nytjastuld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×