Innlent

„Hafmeyjur vilja vera í vatni“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Hafmeyjan snéri aftur í Reykjavíkurtjörnina í dag. Jón Gnarr tók glaður í bragði á móti Hafmeyjunni og fagnar því að komið verði upp höggmyndagarði í Hljómskálagarðinum.

Árið 1959 var höggmyndin Hafmeyjan eftir Nínu Sæmundson komið fyrir í Reykjavíkurtjörn. Verkið þótti umdeilt og ári síðar var höggmyndin sprengd í loft upp. Enn er óupplýst hver var þar að verki. Nýja afsteypan af Hafmeyjunni hefur staðið í Sumargarðinum við Smáralind frá opnun 2001. Í dag má segja að Hafmeyjan hafi snúið heim því Helgi Gunnarsson, stjórnarformaður Smáralindar afhenti borgarstjóra verkið á tjarnarbakkanum í dag.

„Við erum að hnýta lausa enda og nú er þetta aftur orðið rétt. Hafmeyjan er aftur komin heim - hafmeyjur vilja vera í vatni,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri.

Höggmyndin af Hafmeyjunni verður meðal fleiri verka í sérstökum höggmyndagarði sem komið verður upp í Hljómskálagarðinum til minningar um formæður íslenskrar höggmyndalistar.

Athöfnin í dag var eitt síðasta embættisverk Jóns Gnarr sem borgarstjóra en hann lætur af embætti eftir helgi. Kveður hann embættið með söknuði? „Þetta er tilhlökkunarblandin söknuður. Nei, nei - fer að gera eitthvað annað,“ segir Jón og hlær.

Nánar í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×