Innlent

Lögreglan rannsaki sig ekki sjálf

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, segir að skoða þurfi fyrirkomulag rannsókna á málum á borð við Hraunbæjarmálið til frambúðar. Ríkissaksóknari hefur sent ráðuneytinu erindi með tillögum að úrbótum á verklagi sem eru nú til skoðunar. 

Hálft ár er nú liðið frá því að Sævar Rafn Jónasson féll fyrir skotum lögreglu í Hraunbæ í Árbæjarhverfi. Var það í fyrsta sinn sem maður lætur lífið af völdum skotvops í átökum við lögreglu hér á landi. Rannsókn málsins er nú lokið og var greinargerð ríkissaksóknara birt í gær.  

Engar athugasemdir voru gerðar við störf lögreglu þessa afdrifaríku nótt en ríkissaksóknari segir að í framtíðinni væri æskilegt að óháður aðili rannsaki mál af þessum toga. Innanríkisráðherra tekur undir það.

„Niðurstaða ríkissaksóknara í þessu máli er alveg skýr um að lögreglan hafi ekki brotið lög við þessar erfiðu aðstæður. Ég tek hinsvegar undir að það þurfi að skoða fyrirkomulag slíkra rannsókna til framtíðar. Ég mun í framhaldinu skoða vandlega þær tillögur um úrbætur sem ríkissaksóknari hefur nú sent og komið áleiðis til ráðuneytisins“.

Hanna Birna segir að unnið verði úr erindi ríkissaksóknara um úrbætur eins fljótt og auðið er og ráðstafanir gerðar í samræmi við það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×