Innlent

Hagaskóli endurheimti titilinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lið Hagaskóla ásamt andlegum leiðtoga liðsins, Ágústu Ragnars.
Lið Hagaskóla ásamt andlegum leiðtoga liðsins, Ágústu Ragnars. Mynd/Margrét Gunnarsdóttir
Lið Hagaskóla bar sigur úr býtum í Spurningakeppni grunnskólanna sem fram fór í hátíðarsal Hagaskóla í kvöld. Liðið lagði Réttarholtsskóla í úrslitum 25-19 en síðarnefnda liðið hafði forystu að loknum hraðaspurningum.

Keppnin var nú haldin í þriðja sinn en hún er arftaki keppninnar „Nema hvað?“ sem haldin var fyrir grunnskóla í Reykjavík á árum áður. Hagaskóli vann sigur árið 2012, Laugalækjaskóli lagði Hagaskóla að velli í fyrra og nú endurheimti Hagaskóli titilinn. 54 skólar um allt land skráðu sig til keppni í ár.

„Það er frábær tilfinning að vinna keppnina. Við erum búin að leggja hart að okkur í vetur og því frábært að koma bikarnum aftur á réttan stað,“ sagði Katrín Agla Tómasdóttir í samtali við Vísi.

Lið Hagaskóla skipuðu auk Katrínar Öglu þeir Atli Már Eyjólfsson og Óskar Örn Bragason, liðstjórar voru Bjarni Ármann Atlason og Sólveig María Gunnarsdóttir og þjálfarar þeir Egill Ástráðsson og Gunnar Trausti Eyjólfsson.

Lið Réttarholtsskóla skipuðu þeir Ísarr Vídalín, Birgitta Björg Guðmarsdóttir og Baldur Blöndal. Jakob Jónsson og Gunnar Kristinn Óskarsson eru þjálfarar liðsins.

Hannes Daði Haraldsson var umsjónarmaður keppninnar líkt og undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×