Innlent

„Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá sýslumannsembættið áfram á Akureyri“

Randver Kári Randversson skrifar
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstóri á Akureyri.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstóri á Akureyri. Vísir/GVA
„Mér finnst þetta mjög athyglisvert vegna þess að hér hefur verið mikil og rík hefð fyrir því að sýslumaður sitji á Akureyri. Ég sakna þess mjög, að missa höfuðstöðvar sýslumanns embættisins héðan frá höfuðstað Norðurlands,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstóri á Akureyri.

Fram kemur í gögnum sem birt hafa verið á vef innanríkisráðuneytisins og varða reglugerð um umdæmamörk og starfsstöðvar lögregluembætta og sýslumannsembætta, að gert er ráð fyrir að aðalskrifstofa sýslumannsins á Norðurlandi eystra verði á Húsavík. Vefurinn akv.is greindi frá þessu.

Gögnin sem um ræðir eru ætluð til kynningar og samráðs við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga, lögreglustjóra og sýslumenn. Innanríkisráðuneytið hefur óskað eftir rökstuddum tillögum eða athugasemdum fyrir 1. júlí næstkomandi.

„Við höfum ekki fengið neina tilkynningu um þetta hérna hjá sveitarfélaginu. Við vitum ekki hvort starfsfólki fækkar eða hvort einhver breyting verður á sýsluskrifstofunni hérna,“ segir Eiríkur.

„Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá sýslumannsembættið áfram á Akureyri. Mér finnst það mjög eðlilegt, ekki síst þar sem sýslumaður er saksóknari svæðisins og hér er héraðsdómur staðsettur. Við bíðum bara eftir að fá þetta erindi til okkar formlega og getum þá tekið það fyrir. Ég reikna með að ný bæjarstjórn á Akureyri svara því formlega þegar það berst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×