Innlent

„Erfiðara hlutskipti að vera karl en kona“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
„Jafnréttisbaráttu kvenna lauk með fullum sigri kvenna,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði. Hann segir að það sé mun erfiðara að vera karl en kona í vestrænu samfélagi. Bandarískur prófessor er ósammála.

Hannes Hólmsteinn flutti í dag erindi á Alþjóðlegri ráðstefnu um karlmennsku sem fram fer í Öskju. Í erindi sínu fjallaði Hannes um það sem hann kallar kúgun karla í vestrænu samfélagi.

„Jafnréttisbaráttunni lauk með fullum sigri kvenna. Nú hallar á karla. Lífslíkur þeirra eru minni en kvenna, þeir eru miklu líklegri til að stytta sér aldur, líklegri til að fara í fangelsi og það er mjög margt annað sem bendir til þess að það sé blátt áfram erfiðara hlutskipti að vera karl en kona í vestrænu nútímaþjóðfélagi,“ segir Hannes.

Bestu launin fólgin í börnunum

Hannes viðurkennir að enn sé launamunur á milli kynjanna. Það sé hins vegar ekki vegna þess að karlar mismuni konum heldur vegna þess að konur velji störf sem geti farið saman við barneignir og heimilishald. Hannes segir það veita þeim mun meiri hamingju - miðað við karlmenn sem hafa tilhneigingu til að vinna mikið.

„Náttúran neitaði mönnunum um það sem konur geta, sem er að bera börn í kviði sér og hafa þau á brjósti. Ég held að það gefi konum mikla lífsfyllingu sem mennirnir hafa ekki. Sjálf bestu launin eru auðvitað fólgin í börnunum, móðurhlutverkinu sem ég tel að menn eigi ekki að vanmeta.“

Michael Kimmel, prófessor í félagsfræði við Stony Brook háskólann í New York, er ósammála Hannesi að nær öllu leyti. „Við sem styðjum jafnrétti kynjanna gætum tekið sömu tölfræði og Hannes notar til að undirstirka kúgun manna til þess að komast að þeirri niðurstöðu hvers vegna mikilvægt er að styðja jafnrétti kynjanna.“

Kimmel er ósammála um að karlmenn séu óhamingjusamari en konur. Hann bendir á rannsóknir sem sýna að kvæntir karlmenn séu mun hamingjusamari en þeir ókvæntu. „Hvers vegna eru kvæntir menn mun hamingjusamari en ókvæntir menn? Það er vegna þess að  karlar fá mikið í gegnum hjónaband. Þeir fá matarþjónustu, kynlíf, þrif, o.fl.. Þetta er frábær samningur fyrir karlmenn,“ segir Kimmel.

„Það er alls ekki þannig að menn séu óhamingjusamari en konur. Feðraveldi, mismunun kynjanna er karlmönnum í hag en í hjónabandi eru þeir mun hamingjusamari.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×