Innlent

Rúmlega 280 þreyta inntökuprófið

Stefán Árni Pálsson skrifar
mynd úr safni
283 nemendur hafa skráð sig í inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun í Læknadeild Háskóla Íslands fyrir komandi haustmisseri en þetta kemur fram í frétt á vef Háskóla Íslands. Prófið fer fram 11. og 12. júní og er þetta tólfta sinn sem þetta fyrirkomulag er viðhaft við inntöku nýrra nemenda.

Í heild munu 233 þreyta inntökupróf í læknisfræði fyrir komandi haust en 50 í sjúkraþjálfun. Sama próf er lagt fyrir alla þátttakendur og þeir sem standa sig best geta skráð sig í læknisfræði eða sjúkraþjálfun, allt eftir skráningu viðkomandi í prófið. Teknir eru inn 35 nemendur í sjúkraþjálfun og 48 í læknisfræði en fjöldinn miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna varðandi verklega þjálfun stúdenta.

Inntökuprófið er tvískipt. Annar meginhluti prófsins (70%) byggist á námsefni framhaldsskóla og þar eru eingöngu krossaspurningar. Í hinum meginhlutanum (30%) eru spurningar sem kanna almenna þekkingu, nálgun og úrlausn vandamála svo og spurningar um siðfræðileg álitamál. Í þessum hluta er bæði um krossapróf og stuttar ritgerðir að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×