Innlent

Segir snúið út úr orðum sínum

Hjörtur Hjartarson skrifar
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarmanna í Reykjavík segir að snúið hafi verið út úr orðum sínum og þau mistúlkuð í aðdraganda kosninganna. Hún segir fjölmiðla bera að hluta til ábyrgð á því að umræðan fór úr böndunum.

Sveinbjörg Birna var gestur Björns Inga Hrafnssonar í þættinum Eyjunni á Stöð 2 í gær. Þar sagði hún að það hefði komið sér á óvart að hversu viðkvæmt málið væri og hefði líklega verið betra að geyma það fram yfir kosningar.

„Eftir á að hyggja Björn Ingi, og fyrir alla, þá harma ég það að þetta hafi verið látið líta út fyrir að vera kosningamál Framsóknarflokksins, eða Framboðsins í Reykjavík. Það stóð ekki til að það yrði það, það átti ekki að vera það og það er margt sem hefði mátt betur fara,“ sagði Sveinbjörg.

Guðfinna Jóhann Guðmundsdóttir, sem var í öðru sæti lista Framsóknarflokksins segir málið aldrei hafa snúist um andúð framboðsins á Mosku eða múslimum heldur um staðsetningu. Það rímar hinsvegar illa við það sem Sveinbjörg sagði í viðtali við Vísi þann 23.maí.

„Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku rétttrúnaðarkirkjuna.“

Eftirfarandi ummæli voru skrifuð á Facebook-síðu Sveinbjargar og setti hún „like" við þau.

Áður en moskulóð er úthlutað held ég að menn og konur ættu að kynna sér ástandið á Norðurlöndunum og víðar vegna múslima og glæpa þeirra og það sérstaklega gegn konum og ungum stúlkum og læra af þeirri reynslu. Mosku á undir engum kringumstæðum að leyfa hér á landi.

Aðspurð um ábyrgð sína á því að umræðan varð jafnhávær og raun ber vitni sagði Sveinbjörg:

„Ég veit það, sem stjórnmálamaður, í dag að ég ber ábyrgð á því sem ég segi og hvernig það kemur fram. Sú ábyrgð er líka á fjölmiðlum. Þeir sem að velja að snúa út úr orðum okkar, þeir sem að taka upp á því að fara að twitta, skrifa á Facebook og koma með greinar sem að snúa út úr þessu, þau ummæli hljóta að dæma sig sjálf.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×