Innlent

Ætla að vera fyrst með tölur

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
„Við erum keppnisfólk og viljum vera fyrst og best," segir formaður kjörstjórnar í Hafnarfirði en kjörstjórnin þar á bæ hefur undanfarin ár verið fyrst allra bæja til að flytja landsmönnum fyrstu tölur í kosningum.

Það var rólegt um að litast þegar að fréttastofu bar að garði í Lækjarskóla í Hafnarfirði í dag, en kjörsókn hefur verið dræm í bæjarfélaginu í dag. Það var þó nóg að gera hjá kjörstjórn bæjarfélagsins en hún hefur undanfarin ár verið fræg fyrir að vera fyrst með fyrstu tölur af öllum bæjarfélögum landsins. En hver er galdurinn á bakvið þessi hröðu talningu?

„Talningafólkið er margreynt. Við erum með talningastjóra sem er búinn að vera í 50 ár, kann þetta sko ekki upp á sína tíu heldur örugglega upp á tuttugu ef því er að skipta“ segir Jóna Ósk Guðjónsdóttir, formaður kjörstjórnar í Hafnarfirði.

Þannig að fólk hefur metnað fyrir þessu?

„Algjörlega. Eins og ég sagði, við erum keppnisfólk og viljum vera fyrst og best.“

Hvaðan kemur þessi metnaður?

„Já, það er góð spurning. Hvort það sé eitthvað í vatninu hérna, ég veit það ekki.“

Og hvenær er svo von á fyrstu tölum úr Hafnarfirði í kvöld?

„Fljótlega uppúr tíu geri ég ráð fyrir að við verðum klár með fyrst tölur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×