Innlent

Björt Framtíð á Akureyri fær minna úr kjörkössunum en kannanir gáfu til kynna

Sveinn Arnarsson skrifar
Margrét Kristín Helgadóttir, oddviti Bjartrar framtíðar á Akureyri.
Margrét Kristín Helgadóttir, oddviti Bjartrar framtíðar á Akureyri.
Margrét Kristín Helgadóttir, oddviti Bjartrar framtíðar á Akureyr var ánægð með það að ná inn bæjarfulltrúa verandi nýtt framboð í sveitarstjórn á Akureyri. Hún sagðist hins vegar viljað fá aðeins meira upp úr kjörkössunum. Björt framtíð er með 9.1% samkvæmt fyrstu tölum hér á Akureyri.

„Já auðvitað er þetta svekkjandi en við megum ekki gleyma því að við erum nýtt framboð og erum náttúrlega þakklát fyrir hvert einasta atkvæði sem við fáum. Það að fá inn einn bæjarfulltrúa sem nýtt framboð er auðvitað æðislegt,“ segir Margrét Kristín Helgadóttir.

Björt framtíð er að festa sig í sessi á sveitarstjórnarstiginu, nær inn mönnum í fjölda sveitarfélaga á landinu. Hins vegar er fylgi þeirra á Akureyri minna en í öðrum sveitarfélögum þar sem Björt framtíð býður fram.

„Ég á ekki svör við því af hverju við erum að uppskera minna hér en í öðrum sveitarfélögum. það er nokkuð sérkennileg staða núna hér á Akureyri, hér eru sjö framboð og umræðan hefur verið þannig að flestir séu sammála og gott fólk í öllum flokkum svo það hlaut auðvitað að dreifast á milli framboðanna og þetta er útkoman samkvæmt fyrstu tölum,“ segir Margrét Kristín.

Margrét Kristín er tilbúin til að starfa með öllum flokkum í meirihluta á næsta kjörtímabili. „Það er æðislegt fólk í öllum flokkum og við erum tilbúin að vinna með hverjum sem er að því að gera Akureyri að frábærum bæ.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×