Innlent

Hótelstjóri harmar nauðgunarmál

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Ég bið ykkur fyrir hönd hótelsins afsökunar á því að vegna uppfærslu á öryggismyndavélakerfi okkar þá hafi ekki verið um neinar myndaupptökur að ræða til að staðfesta frásögnina.“ Þetta segir Guðjón Andri Kárason, hótelstjóri Best Western hótelsins í Reykjavík og beinir svari sínu til konunnar sem varð fyrir nauðgun á hótelinu á síðasta ári.

Ekki var hægt að sækja manninn til saka þar sem öryggiskerfi hótelsins lá niðri og því engin haldbær sönnunargögn fyrir hendi. Konan, sem heitir Nataliya Riggs, gagnrýndi hótelið harðlega í frásögn sinni á vefsíðunni. TripAdvisor er afar vinsæl heimasíða þar sem ferðamenn geta gefið einkunn fyrir þjónustu og vöru sem þeir nýta á ferðalögum sínum.

„Við erum afar hrygg yfir þeirri hryllilegu lífsreynslu sem þið urðuð fyrir þessa örlagaríku nótt í fríi ykkar hér á landi. Það þarf hugrekki til að opinbera slíka reynslu og það er afar miður að lögreglu hafi ekki auðnast að handsama brotamanninn sem framdi þennan alvarlega glæp,“ segir Guðjón jafnframt.

Guðjón segir að vinnulag hótelsins verði tekið til gagngerrar endurskoðunar í ljósi málsins og þegar hafi verið gripið til úrbóta.

„Einnig vil ég biðjast afsökunar á því að hafa ekki brugðist betur við þegar málið kom upp. Mér þykir óskaplega leitt ef að fyrstu viðbrögð okkar hafa valdið ykkur vonbrigðum. Ég fullvissa ykkur um að við viljum allt gera til þess að draga lærdóm af málinu og hindra að svona nokkuð geti gerst aftur,“ segir Guðjón að lokum.

Nataliya kom ásamt eiginmanni sínum hingað til lands í lok síðasta árs. Hjónin fóru saman út að skemmta sér nóttina örlagaríku og komu þau seint heim. Bæði voru þau vel í glasi og segjast þau ekki hafa haft rænu til þess að opna dyrnar að hótelherberginu sjálf. Starfsmaður hótelsins hafi því opnað fyrir þeim, en í för með þeim var ókunnugur maður Nataliya segir að um leið og eiginmaður hennar sofnaði hafi maðurinn nauðgað henni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×