Innlent

Smíðaði stólinn sjálfur

Birta Björnsdóttir skrifar
Arnar Helgi Lárusson hefur notast við sama hjólastólinn við íþróttaiðkun sína undanfarin ár og sá var farinn að láta á sjá. Þar sem nýr stóll er afar dýr brá Arnar á það ráð að smíða sinn eigin stól.

„Ég er búin að fara tæpa 5000 kílómetra á gamla stólnum og þurfti að fá nýjan. Ég er bæði búinn að léttast og grennast síðan ég eignaðist gamla stólinn og hann þarf að vera alveg aðsniðinn. Ég vildi líka prufa nýja hluti sem ekki var hægt á þeim gamla svo ég ákvað bara að smíða nýjan stól,“ segir Arnar.

Hann útilokar ekki að hann komi til með að smíða fleiri stóla í framtíðinni, fyrir sjálfan sig eða aðra.

Stóllinn góði nýtist Arnari í öllum keppnisgreinum, en hann keppir í allt frá 100 metra akstri og upp í heilt maraþon. En ekki er það nú alveg ókeypis að smíða sinn eigin hjólastól.

„Það er alveg gefið mál að ef maður ætlar að verða afreksmaður í íþróttum þyrfti maður að komast út að keppa helst annan hvern mánuð. Ég óska eftir stuðningsaðilum ef það er einhver þarna úti sem vill styrkja almennilega fyrirmynd,“ segir Arnar.

„Ég verð erlendis eiginlega allan maí í æfingabúðum og tek þátt í tveimur stórum keppnum í leiðinni. Ég stefni á að slá öll Íslandsmet sem til eru á nýja stólnum,“ segir Arnar að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.