Innlent

Hleruðu síma án heimildar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða konu 300 þúsund krónur vegna hlerun síma hennar af embætti Sérstaks saksóknara. Þá er íslenska ríkinu einnig gert að greiða allan málskostnað, eða 550 þúsund krónur. Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur síðastliðinn föstudag.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2011 var Sérstökum saksóknara heimiluð símhlerun. Heimildin var veitt fyrir tímabilið 10.júní 2011 til 19. sama mánaðar.  Náði heimildin til að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í þrjú tiltekin símanúmer, eiginmanns konunnar auk þess að nema SMS-sendingar og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf þessara símanúmera.

Auk hinna tilgreindu símanúmera var aðgerðin gagnvart öðrum símanúmerum og símtækjum sem eiginmaður konunnar hafði í eigu sinni eða umráðum.

Ekki lá fyrir úrskurður um hlerun síma konunnar. Vísbending sem lögregla byggði á þegar hún hóf hlerun síma konunnar var sú að eiginmaður hennar hafði beðið viðmælanda sinn um að hringja í símanúmer hennar. Sú ályktun ein og sér dugði ekki til að heimila hlerun á síma hennar.

Konan segir aðgerðirnar hafa valdið sér miska og að með hlerun síma hennar hafi verið brotið gróflega og alvarlega á rétti hennar til friðhelgi einkalífs. Málið sé enn alvarlegra þar sem hún sé hjúkrunarfræðingur og ræði einatt viðkvæm heilbrigðismálefni um einstakar persónur í símann. Þá segist hún sár, reið, upplifi öryggisleysi og sér líði illa. Hún hafi ekki fengið neinar upplýsingar um aðgerðirnar og verið mætt af fullkomnu virðingarleysi af hálfu embættis Sérstaks saksóknara.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.