Innlent

Útilokar ekki málamiðlun í ESB málinu

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður utanríkismálanefndar segir að tillögur stjórnarandstöðunnar í ESB málinu fái þinglega meðferð eins og tillaga utanríkisráðherra. Menn séu full fljótir að draga ályktanir um að samkomulag takist ekki.
Formaður utanríkismálanefndar segir að tillögur stjórnarandstöðunnar í ESB málinu fái þinglega meðferð eins og tillaga utanríkisráðherra. Menn séu full fljótir að draga ályktanir um að samkomulag takist ekki. vísir/stefán
Birgir Ármannsson formaður utanríkisnefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins útilokar ekki að að tillaga utanríkisráðherra um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka, taki breytingum í meðförum enfndarinnar. Hann segir orðalag kosningaloforðs flokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu hafa verið óheppilegt.

Þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka var tekin á dagskrá Alþingis í gær. Af umræðunni um skýrslu Hagfræðistofnunar um sambandið að dæma, eru stjórnarflokkarnir gallharðir í afstöðu sinni og ekki útlit fyrir að þeir ætli að taka tillit til málamiðlunartillagna stjórnarandstöðunnar, mótmæla á Austurvelli og fjölda undirskrifta á Netinu.

Birgir Ármannsson sagði hins vegar í Íslandi í dag í gærkvöldi að menn væru fullfljótir að draga ályktanir í þeim efnum.

„Staðan er einfaldlega sú að nú er þingleg meðferð þessarar tillögu að hefjast. Það er líka boðað að það verði fjallað um aðrar tillögur um aðrar þær tillögur sem komið hafa fram í þinginu um málsmeðferð,“ segir Birgir.

Þannig að þú ert að segja að það sé ekki útilokað að hægt sé að ná einhverju samkomulagi eða breytingum?

„Menn segja aldrei í upphafi ferils að ekki verði um neinar samningaviðræður að ræða,“ segir formaður utanríkismálanefndar.

Birgir viðurkennir að erfitt hafi verið að svara fyrir afstöðu þingflokks Sjálfstæðisflokksins til þjóðaratkvæðagreiðslu nú, eftir kosningaloforð formanns flokksins og annarra forystumanna í þeim efnum. Sjálfur hafi hann verið þeirrar skoðunar að ekki ætti að halda viðræðunum áfram án þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Þeir forystumenn sem vitnað er til orðuðu hlutina með öðrum hætti og ég hef sagt það í viðtölum að mér hafi þótt það óheppilegt,“ segir Birgir.

Eru þau óheppileg, kosningaloforðin?

„Orðalagið, kann að vera, bætir Birgir við.

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi formaður flokksins og forsætisráðherra er einn þeirra sem hefur gagnrýnt núverandi formann og forystu flokksins harðlega fyrir að ætla ekki að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það hlýtur að svíða undan því?

„Já, já vissulega. Mér finnst hann nota allt of stór orð og mér finnst hann hafa tekið allt of djúpt í árinni og ég er ekki sáttur við það,“ segir Birgir. Auðvitað svíði undan orðum Þorsteins sem fyrrverandi formanns þar sem Þorsteinn eigi sér langa sögu.

„Og það er auðvitað ekkert þægilegt,“ sagði Birgir Ármannsson í Íslandi í dag í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×