Innlent

Þjóðaratkvæðagreiðsla kemur ekki til greina

Jakob Bjarnar skrifar
Gunnar Bragi mun halda sínu striki hvað sem líður skoðanakönnunum og undirskriftasöfnunum.
Gunnar Bragi mun halda sínu striki hvað sem líður skoðanakönnunum og undirskriftasöfnunum.
Í skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti í morgun kemur fram sá vilji 82 prósent landsmanna að ákvörðun um framhald viðræðna verði borin undir þjóðaratkvæði, rúmur helmingur framsóknarmanna og tveir af hverjum þremur sjálfstæðismönnum vilja þjóðaratkvæðagreiðslu. Fréttastofa Ríkisútvarpsins bar þessa niðurstöðu undir Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra, en hann mælti í gær fyrir þingályktunartillögu þar sem gert er ráð fyrir því að slíta viðræðum umsvifalaust við Evrópusambandið. Gunnar Bragi segir það ekki koma sér á óvart:

„Ég fagna því að þjóðin hefur áhuga á þessu máli, kemur mér ekkert á óvart miðað við málin hafa þróast í þinginu og hvernig fjölmiðlar hafa fjallað um málið, mjög einhliða og sérstakur fréttaflutningur. Þannig að ég er ekkert hissa á því að þetta sé með þessum hætti.“

Gunnar Bragi segir, við svo búið, að ekki komi til greina að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræðuslit við Evrópusambandið. Það liggi algjörlega fyrir hvað ríkisstjórnin ætli sér í málinu. Þá snýr hann uppá spurninguna sem er í takti við málflutning framsóknarmanna undanfarna daga: „En verði hins vegar farið áfram í viðræður, taki ríkisstjórnin ákvörðun um það að halda áfram viðræðum, þá munum við að sjálfsögðu efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×