Innlent

Viðkvæmum gögnum um meint kynferðisbrot lekið á netið

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
„Við gáfum okkar leyfi fyrir þessari birtingu. Við höfum allsstaðar komið að lokuðum dyrum og erum við það að gefast upp,“ segir móðir stúlku sem lagði fram kæru á hendur lögreglumanni árið 2011. Vefsíða á netinu hefur nú birt gögn í málinu og þar á meðal nafngreint dóttur konunnar.

Meint brot áttu sér stað þegar stúlkan var í sumarbústað með vinkonum sínum. Fósturfaðir einnar stúlkunnar er meintur gerandi. Málið var rannsakað á sínum tíma og fór meðal annars inn á borð ríkislögreglustjóra, innanríkisráðherra og þá tók Umboðsmaður Alþingis málið fyrir.

Að sögn móðurinnar kom málið fyrst upp þegar dóttir hennar brotnaði niður í kennslustund í skólanum. Stúlkan var þá fjórtán ára gömul, en meint brot áttu sér stað þegar hún var tíu ára. „Hún hafði ekki þorað að segja neinum frá þessu máli, fyrr en þarna. Hún hafði þá byrgt þetta inni í fjögur ár og var farin á þróa með sér óæskilega hegðun. Ég tók til dæmis eftir því að hún var farin að hræðast karlmenn en hún þorði ekki að segja mér frá þessu, þannig að ég vissi ekkert fyrr en fjórum árum eftir atburðinn,“ útskýrir móðirin í samtali við Vísi

„Mín skoðun er sú að við þurfum að tala um hlutina. Þetta er vissulega óþægilegt, sárt og vont mál. En þetta er samt eitthvað sem við þurfum að tala um,“ segir móðirin.

Gögnin sem vefsíðan birtir eru afar ítarleg. Þar á meðal eru skýrslur af viðtölum sem tekin voru í Barnahúsi af stúlkunni og vinkonum hennar, þar á meðal fósturdóttur mannsins sem sakaður er um verknaðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×