Lögreglumenn úr Reykjavík fundu snemma í morgun þýskan ferðamann, sem lögreglan á Suðurnesjum var að leita að. Hann átti bókað far úr landi í gærmorgun en skilaði sér ekki. Síðast sást til hans í grennd við Leifsstöð í gærmorgun og þótti því undarlegt að hann skildi ekki skila sér í flugið.
Í ljósi þess að hann á við andleg veikindi að stríða, hófst eftirgrennslan og óformleg leit, sem bar árangur upp úr klukkan sex í morgun þegar maðurinn fannst á BSÍ, og amaði ekkert að honum. Lögreglan hefur nú tekið hann upp á sína arma og ætlar að greiða götu hans til heimalandsins.
