Innlent

Borgarskjalasafn Reykjavíkur fær einstakar heimildir

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðfinna Guðmundsdóttir og Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður að skrifa undir samning um afhendingu á safni.
Guðfinna Guðmundsdóttir og Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður að skrifa undir samning um afhendingu á safni. mynd/aðsend
Guðfinna Guðmundsdóttir hefur afhent Borgarskjalasafn Reykjavíkur til varðveislu einkaskjalasafn Dr. juris Björns Þórðarsonar, sem var forsætisráðherra utanþingsstjórnar á miklum umbrotatíma 1942 til 1944. Guðfinna er tengdadóttir Björns.

Safnið ku vera mjög viðamikið, alls 32 öskjur og nær yfir ævihlaup Björns, bæði í einkalífi, starfi og sem stjórnmálamaður. Safnið inniheldur mikið af heimildum um sjálfstæðisbaráttu og lýðveldisstofnun Íslendinga sem ekki hafa áður verið aðgengilegar fræðimönnum og almenningi.

Sumt af þessu eru einstakar heimildir, til dæmis dagbækur Björns og minnisbækur frá þeim tíma þegar hann var forsætisráðherra. Þær gefa ótrúlega skemmtilega innsýn bak við tjöldin á þessum umbrotatíma.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur ljósmyndað umræddar dagbækur og minnisbækur og mun formlega gera þær aðgengilegar öllum á afmælisdegi safnsins þriðjudaginn 7. október en þá mun safnið halda upp á 60 ára afmæli sitt.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur varðveitir nú heilstæð einkaskjalasöfn þriggja forsætisráðherra. Auk Björn Þórðarsonar varðveitir safnið skjalasafna Bjarna Benediktssonar og Ólafs Thors.

Öll söfnin hafa verið skráð og er hægt sækja um aðgang að þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×