Þrjár milljónir manna hafa nú þegar flúið Sýrland síðan borgarastríðið hófst fyrir þremur árum. Að minnsta kosti fimm milljónir eru á vergangi innan landsins, en fyrir tveimur árum var íbúatalan 22 milljónir. Þetta ástand er ekki í lagi. Og það lagast ekkert. Allir sem ég hitti sögðu að þetta ástand muni vara í tíu, jafnvel fimmtán ár. Eins og borgarastríðið í Líbanon, sem nú er lokið fyrir löngu.
Eftir fimmtán ár verður Najwa, litla nýfædda stelpan sem ég hitti með bróður hennar og mömmu fyrsta kvöldið, að fara í menntaskóla. Staðreyndin er bara sú að hér í Beqaa-dalnum er engin framtíð, engin skólaganga, ekkert. Og pabbinn? Einn af 206 þúsund sem misst hafa lífið, eða kannski einn af 130 þúsund sem hafa horfið, mun aldrei sjá eða hitta dóttur sína.
Þetta jafngildir íslenskri þjóð, sem hefur dáið, eða gufað upp, í Sýrlandi á þremur árum.

Klósettum er komið upp, bárujárnstunnum með þaki og gati í illa steyptu gólfinu, síðan ganga rör út út úr þeim. Rör sem ná ekki lengra en hundrað sentímetra, þar sem kúkur, piss og ólykt taka vel á móti gestum og gangandi. Líklega er á annað hundrað manns um hvert klósett en aldrei sá ég biðröð. Rennandi vatn, ekkert. En tanka þar sem fólk getur sótt vatn til matargerðar og þrifnaðar er að finna með jöfnu millibili í tjaldbúðunum.
En þrátt fyrir allt kom það mér mest á óvart hve fólk var hreinlegt, æðrulaust, kurteist og stolt. Þarna hitti ég kristna, drúsa, alavíta, sjíta og súnnía, trúin var ekki að trufla. Allir lögðust á árar við að hjálpa næsta manni að koma upp tjaldi, bústað, finna mat. Og börnin léku sér í einhvers konar brennó, feluleik eða stríðsleik. Pang! Dauður. Þarna deyrð þú í þykjustunni. Hér heldurðu því eina sem þú átt: lífinu. Hér er það öruggt.
Hvernig gat þetta gerst í Sýrlandi? Hjá þessari umburðarlyndu, velmenntuðu fjölmenningarþjóð. Með Damaskus, heillandi heimsborg, sem höfuðborg. Óskiljanlegt.

Í fjörutíu og fjögur ár, síðan 1970, hefur al-Assad-fjölskyldan stjórnað landinu með stuðningi Ba‘ath-flokksins. Fyrst var það Hafez al-Assad sem stjórnaði landinu í 30 ár, frá 1970 til dauðadags árið 2000, þegar sonurinn, breskmenntaði augnlæknirinn Bashar Hafez al-Assad, tók við forsetaembættinu. Fjölskyldan er alavítar, trúarbrögð milli gyðingdóms og súnnímúslíma sem aðeins 11 prósent þjóðarinnar tilheyra, og þeir hafa stjórnað og ráðið öllu undanfarna hálfa öld þrátt fyrir að þrír af hverjum fjórum Sýrlendingum séu súnnímúslímar og einn af hverjum tíu kristinnar trúar, auk drúsa og örfárra gyðinga.
Eins og staðan er í dag er stríðið í pattstöðu. Enginn er með yfirhöndina. Stjórnin heldur 40 prósentum landsins, 60 prósentum íbúanna, og mismunandi hópar uppreisnarmanna halda héraði og héraði og hafa barist hver við annan af mikilli heift, rétt eins og við stjórnarherinn.
Rússar hafa verið helstu bandamenn ríkisstjórnarinnar ásamt Hizbollah-samtökunum í Líbanon en Sádar, Bandaríkjamenn og Flóaríkin hafa verið öflugustu bandamenn uppreisnarmanna.
Allir stríðsaðilar hafa framið voðaverk, stríðsglæpi á óbreyttum borgurum, og notað jafnvel til þess efnavopn. Síðast, nú fyrir tveimur vikum í Kafr Zita, þorpi 200 km norður af Damaskus sem uppreisnarmenn halda. Stjórnin var fljót að kenna uppreisnarmönnum um ódæðið en gat ekki útskýrt hvernig ríkisfjölmiðlar gátu varað vinveitt þorp í nágrenninu við yfirvofandi efnavopnaárás, með sólarhrings fyrirvara.

Svíar hafa sýnt manndóm og mannúð og veitt 26 þúsund Sýrlendingum hæli á síðustu tveimur árum. Hvenær kemur að okkur?
Ef við notuðum höfðatöluregluna, og vildum vera jafnokar frænda vorra, Svía, værum við búin að veita bara 900 Sýrlendingum varanlegt skjól, af þeim þremur milljónum sem hafa misst landið sitt, og lífið fram undan.
Úr herbergisglugganum ljómaði austurhimininn. Herbergi sex skalf. Sprenging. Helvítis stríð.