Innlent

„Nú er þörf á aðgerð - það sér hver maður“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ásgerður Jóna Flosadóttir er formaður Fjölskylduhjálpar. Hún tók sjálf myndirnar af tönnum konunnar.
Ásgerður Jóna Flosadóttir er formaður Fjölskylduhjálpar. Hún tók sjálf myndirnar af tönnum konunnar. VISIR/GVA/ÁSGERÐUR
„Þetta er held ég fyrsta söfnunin sem við ráðumst í fyrir einstakling í ellefu ár. Auðvitað gæti maður verið með safnanir alla daga handa öllum þeim sem eiga um sárt að binda og eiga í engin hús að venda en mér blöskraði bara svo þegar ég sá þetta“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir formaður Fjölskylduhjálpar.

Í gær birti Ásgerður neyðarkall á Facebook-síðu sinni vegna eins skjólstæðinga hennar; 47 ára einstæðrar móður og öryrkja sem lengi hefur þegið aðstoð samtakanna sökum fátæktar. Í færslunni deilir Ásgerður myndum af tanngarði konunnar sem hún segir mjög sýkta en tannheilsu konnar hafi hrakað mikið á síðustu misserum.

Konan þurfi því nauðsynlega að fá gervitennur sem hún hafi engan hátt efni á. Sýkingarnar í munni hennar séu orðnar svo alvarlegar að hún „gangi nú fyrir pensílinsprautum“ og að sökum tannheilsunnar hafi hún einungis neytt fljótandi fæðis síðustu misseri.

Myndirnar af tönnum konunnar birti Ásgerður á Facebook-síðu sinni.
Ásgerður segir hana hafa lengið reynt að leita sér aðstoðar en að alls staðar hafi hún komið að lokuðum dyrum eða kostnaðurinn við úrlausnirnar verið henni óyfirstíganlegur.

„Hún hefur verið öryrki í mörg ár og veit því hvaða úrræði henni standa til boða en ekkert þeirra hefur gagnast henni. Hún er búin að reyna allt,“ segir Ásgerður. Aðspurð um hvort eða hvernig tryggingar konunnar geti komið til móts við fyrirhugaðan kostnað vegna aðgerðarinnar bætir Ásgerður við: „Það er svo mikið ósamræmi á milli verðlista Tryggingastofnunnar og hjá tannlæknum að hún mun aldrei geta staðið í þessu sjálf. Fjölskylduhjálp hefur lengi aðstoðað hana við að fjármagna lyfin sem hún þarf til að halda sér gangandi en nú er þörf á aðgerð – það sér hver maður.“

Hún hefur einnig leitað á náðir Tanngarðs háskólans en Ásgerður segir biðina hafa verið henni ofviða. Á Tanngarði gangi tannheilsa barna fyrir og að konunni hafi liðið eins og að hvorki gengi né ræki.

Ásgerður beinir því til allra sem eru aflögufærir að hlaupa undir bagga með konunni en stofnaður hefur verið styrktarreikningur undir nafninu Charity fundraising. Þegar næg upphæð hefur safnast fyrir aðgerðinni mun Ásgerður birta sundurliðað kostnaðaruppgjör á Facebook-síðu sinni þar sem sjá má hversu háu hlutfalli fjárhæðarinnar verður varið í lyfjakaup og til að standa straum af kostnaði við sjálfa aðgerðina.

Hún áætlar að stærsti kostnaðarliðurinn muni verða alla vinnuna í kringum munn konunnar, sérstaklega að draga tennurnar úr henni. Reikningsupplýsingarnar eru:

Reikningsnúmer: 546-26-660904 - Kennitala: 630514-0530.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×