Innlent

Greiðsluvandinn enn óleystur hjá sumum

Eva Bjarnadóttir skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar Mynd/GVA
Áhrif skuldaleiðréttinga á stöðu fólks í greiðsluvanda voru rædd á Alþingi í gær. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvernig ríkisstjórnin hygðist leysa vanda þeirra sem áfram munu glíma við greiðsluvanda vegna neikvæðrar eiginfjárstöðu, þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu skuldugra heimila.

Nefndi Árni sérstaklega þrjá hópa: fólk með lánsveð, fólk sem ekki fékk fullnægjandi úrlausn með 110 prósent leiðinni og þá sem keyptu á fasteign á versta tíma, það er tímabilinu 2005 til 2007. Fjármálaráðherra svaraði því til að aðgerðirnar gagnaðist öllum þeim sem vildu leggja eitthvað af mörkum sjálfir. „Hóparnir, sem háttvirtur þingmaður er sérstaklega að tala um, geta einmitt létt greiðslubyrðina sína með því að fá frjálst val og skattalegan hvata til þess að setja sparnaðinn sinn inn á húsnæðislán,“ sagði ráðherra.

„Það stóra sem stendur eftir er að fjármálaráðherra segir að ekki standi til að gera neitt fyrir þá sem eru áfram í neikvæðri eiginfjárstöðu eftir þessar aðgerðir,“ segir Árni um svar ráðherra. Í gær lagði Árni fram skriflega fyrirspurn til forsætisráðherra í níu liðum um áhrif aðgerðanna út frá eignum og tekjum fólks. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×