Innlent

Fylgjendum aðildar að ESB fer fjölgandi

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á blaðamannafundi eftir sameiginlegan fund þeirra 16. júlí síðastliðinn.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á blaðamannafundi eftir sameiginlegan fund þeirra 16. júlí síðastliðinn. mynd/epa
Átta prósentustigum fleiri segjast nú myndu játa því í þjóðaratkvæðagreiðslu að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu en fyrir ári. Að sama skapi fækkar um 6,2 prósentustig í hópi þeirra sem eru á móti aðild að sambandinu.

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnum sem Capacent Gallup gerði fyrir Já, Ísland, samtök Evrópusinna hér á landi.

Spurt var: Ef aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði borin undir þjóðaratkvæði í dag hvernig telur þú líklegast að þú myndir greiða atkvæði? Svarmöguleikarnir voru fjórir, örugglega eða sennilega með aðild og örugglega eða sennilega á móti aðild.

41,7 prósent töldu öruggt eða sennilegt að þau myndu greiða atkvæði með aðild, fyrir ári var hlutfallið 33,7 prósent.

58,3 prósent sögðu öruggt eða sennilegt að þau myndu greiða atkvæði á móti aðild að Evrópusambandinu, fyrir ári var það hlutfall 64,5 prósent.

Ef þetta er greint eftir stjórnmálaflokkum og þeir flokkaðir saman sem segjast örugglega eða sennilega hlynntir aðild og í hinn flokkinn settir þeir sem eru örugglega og sennilega á móti aðild, kemur í ljós að andstaðan gegn ESB er mest meðal þeirra sem segjast kjósa Framsóknarflokkinn. 13 prósent framsóknarmanna lýsa sig hlynnt aðild en 87 prósent eru andvíg aðild. 

Í hópi stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins eru 79 prósent á móti aðild en 21 prósent með aðild.Samkvæmt könnuninni myndu 59 prósent Vinstri grænna kjósa gegn aðild en 41 prósent er hlynnt aðild.

Aðild að Evrópusambandinu á langmestu fylgi að fagna í Samfylkingunni, 91 prósent segist myndu kjósa með aðild en 9 prósent segjast á móti aðild að ESB. 

75 prósent þeirra sem segjast styðja Bjarta framtíð eru jákvæð gagnvart aðild en 25 prósent eru andvíg.

Könnun Capacent Gallup var netkönnun gerð 7.-19. nóvember. 1.450 voru í úrtakinu, 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 62,1 prósent.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.