Innlent

Kaupþing braut lög með fjármögnun

Freyr Bjarnason skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson ræðir gang mála í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Hreiðar Már Sigurðsson ræðir gang mála í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. fréttablaðið/gva
Stieg Persson, sem var einn af stjórnarmönnum í Kaupþingi, sagði að bankinn hafi brotið lög með því að fjármagna sjálfur kaup Al Thani á 5,01% hlutafé í bankanum.

Hann var einn þeirra tíu sem báru vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í Al Thani-málinu í gær. Persson var einn þeirra sem sátu stjórnarfund Kaupþings í London 28. september 2008.

Saksóknari spurði Persson, sem talaði í síma frá Stokkhólmi, hvort hann hafi vitað að kaupin höfðu verið fjármögnuð af bankanum sjálfum og svaraði hann því neitandi. „Við höfðum ekki þessar upplýsingar. Ég er sannfærður um að ef við hefðum fengið að vita í hvernig málum lá hefðum við gripið til aðgerða,“ sagði hann.

Saksóknari spurði þá hvers vegna og svaraði hann: „Vegna þess að þetta var ekki löglegt.“

Fram kom í vitnisburði Persson og annarra fyrrum stjórnarmanna sem báru vitni í gær að þeir töldu viðskiptin við Al Thani á sínum tíma vera góð fyrir bankann, enda hafi verið markmiðið að laða að fleiri erlenda fjárfesta. Aðspurður hvenær honum hafi verið kunnugt um kaup Al Tani á 5,01% hlut í Kaupþingi sagði hann: „Stjórnin fékk upplýsingarnar um viðskiptin á sama tíma og almenningur, í fréttatilkynningu sem var birt.“

Verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverand forstjóra Kaupþings, spurði Persson hvort einstök lánamál eða hlutabréfaviðskipti hafi almennt verið rædd á stjórnarfundum og sagði hann svo ekki vera. Lánanefnd Kaupþings hafi verið með slík mál á sinni könnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×