Innlent

Nærri 3.500 sitja í nefndum ríkisins

Brjánn Jónasson skrifar
Nefndir og stjórnir sem starfa á vegum ríkisins funda mjög mis-reglulega.
Nefndir og stjórnir sem starfa á vegum ríkisins funda mjög mis-reglulega. Fréttablaðið/GVA
Alls eiga 3.455 einstaklingar sæti í þeim 565 nefndum sem starfa í dag á vegum íslenskra stjórnvalda. Þetta kemur fram í svörum ráðuneytanna við fyrirspurn Spyr.is.

Fjöldi nefndarmanna jafngildir því að 1,6 prósent landsmanna á aldrinum 18 til 70 ára eigi sæti í nefndum ríkisins, um það bil einn af hverjum sextíu einstaklingum á vinnualdri. Gera má ráð fyrir því að talsverður fjöldi sitji í fleiri en einni nefnd, en sé miðað við fjölda nefndarmanna má líkja því við að nær allir íbúar Ísafjarðarbæjar sætu í einhverri nefnd á vegum ríkisins.

Fjöldi nefnda er afar mismunandi eftir ráðuneytum. Þannig eru 211 nefndir starfandi á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, en aðeins sex á vegum utanríkisráðuneytisins eftir að samninganefnd, samningahópar og samráðshópur sem störfuðu að aðildarviðræðum við Evrópusambandið voru sendir í frí.

Fáttækleg svör um kostnað

Í fyrirspurn Spyr.is var óskað eftir upplýsingum um hversu margir nefndarmenn væru launaðir, en alla jafna eru embættismenn sem sitja í nefndum ekki á launum fyrir nefndarsetu sem þeir sinna í vinnutíma sínum. Ráðuneytin svöruðu fæst þeirri spurningu, og er Spyr.is að vinna í því að fá frekari upplýsingar.

Í svörum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kom þó fram að 102 af 417 nefndarmönnum fái greidda þóknun. Hjá Umhverfisráðuneytinu fá nefndarmenn í 16 nefndum af 31 þóknun.

Ekki var spurt um kynjahlutföll í nefndum og stjórnum ríkisins, en í nýlegri skýrslu Jafnréttisstofu kemur fram að árið 2011 hafi 57 prósent nefndarmanna hjá ríkinu verið karlmenn en 43 prósent konur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×