Innlent

Telur lög um kynjakvóta ekki henta lífeyrissjóðum

Boði Logason skrifar
Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða
Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða
Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir að lög sem snúa að kynjahlutfalli í stjórnum lífeyrissjóða kunni að ganga of langt og býst við að funda með núverandi stjórnvöldum vegna málsins. Þau séu ekki hönnuð með hagsmuni lífeyrissjóðanna að leiðarljósi. Enn uppfylla sjö lífeyrissjóðir ekki skilyrði laganna, sem tóku gildi í fyrradag.

Samkvæmt lögunum á hlutfall hvors kyns að vera að lágmarki fjörutíu prósent í stjórnum allra lífeyrissjóða. Í dag er heildarhlutfall kvenna í stjórnunum 44,4 prósent. Einn sjóð vantar tvær konur í stjórnina, fjóra sjóði vantar eina konu í stjórnina og tvo sjóði vantar einn karl í stjórnina, samkvæmt nýlegri samantekt KPMG.

Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða, segir að í sumum þessara tilfella sé uppistaða sjóðfélaga af öðru hvoru kyninu, eins og hjá Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. „Það er allt hægt, það er hægt að búa til einhverja fléttulista en þá getur það líka verið þannig að það sé verið að ýta fólki út vegna þess að það er af öðru hvoru kyni. Það eru kostir og gallar í þessu.“

Hún segir að á næstunni megi búast við því að samtökin taki málið upp við núverandi stjórnvöld. „Við vitum ekki hvort þetta er óbreytt staða stjórnvalda. Þessi lög eru ágæt að mörgu leyti en kunna að ganga of langt. Þau eru ekki hönnuð með hagsmuni lífeyrissjóða að leiðarljósi.“

Eftir að lögin tóku gildi nú um mánaðamót fá hlutafélög sem uppfylla ekki skilyrðið um kynjahlutfall í stjórn ekki skráningu hjá Fyrirtækjaskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×